149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir það merkilegt svar hjá hv. þingmanni að ekki sé gert ráð fyrir því að sá lagalegi fyrirvari, sem hefur verið skýrt að hafi mjög mikla þýðingu í málinu, sé einu sinni til sem skjal, ef rétt er skilið. Ég segi þá í framhaldinu að hugmyndin um þennan lagalega fyrirvara kemur mjög seint fram og ekkert af þeim álitum sem liggja fyrir, annað en álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts þar sem sá möguleiki er reifaður í sjö og hálfri línu, fjallar um þann lagalega fyrirvara.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Hér liggur engin lögfræðileg álitsgerð fyrir um þjóðréttarlegt gildi fyrirvara af því tagi sem er boðaður. Eftir stendur, ég leyfi mér að lesa upp úr greinargerð með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra:

„Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt.“