149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hér er ekki um neinn almennan pirring að ræða af minni hálfu gagnvart okkar frábæra samstarfi sem fylgir EES-samningnum, alls ekki. Ég er stolt af þeim samningi og fannst í rauninni á ákveðnum tímapunkti að hann væri bara það besta sem nokkurn tíma hefði fyrir okkur komið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að mig langar frekar til að spyrja um hver hin eiginlega samningsstaða okkar sé fyrst við erum nú í samningssambandi Evrópska efnahagssvæðisins. Höfum við engan rétt á því að láta reyna á hlutina? Ef vísað er í lögfræðiálitin kemur það glögglega fram hjá Stefáni Má Stefánssyni að þeir voru með tvo möguleika í stöðunni. Stefán Már sagði að sá fyrri hefði frekar eytt lögfræðilegum álitaefnum. Þeir töldu réttari leið að láta reyna á það áður en við kæmum með þennan stjórnskipulega fyrirvara, að við létum reyna á það fyrir sameiginlegu EES-nefndinni hver okkar raunverulega samningsstaða væri á markaðnum (Forseti hringir.) og hvort við hefðum getað samið um þetta fyrir fram.