149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili þeirri skoðun hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að ekkert í orkupakkanum sjálfum leggi nokkrar skyldur á herðar okkar í sambandi við lagningu sæstrengs. Þar er um að ræða reglur sem koma til skoðunar ef um verður að ræða tengingu milli landa, en fela ekki í sér neinar skyldur til að koma slíkri tengingu á. Ég held að þetta eigi að vera nokkuð skýrt.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um það að með þeim búningi sem málinu hefur verið valinn hér, m.a. með skýru ákvæði um að aðkomu Alþingis og samþykki þurfi fyrir því að leggja sæstreng, sé áréttað og undirstrikað að slík ákvörðun verður ekki tekin með einföldum leyfisveitingum af hálfu stjórnvalda heldur þarf aðkomu Alþingis til. Ég held reyndar að við verðum að hafa í huga að framkvæmd af þessu tagi myndi þurfa að fara í gegnum allmörg og flókin leyfisveitingaferli áður en til kæmi og það hefur nú reynst jafnvel áratugaverkefni að fá leyfi fyrir lagningu vegarspotta í landinu. Ég held að þær áhyggjur séu frekar fræðilegar en raunverulegar að það væri með einhverjum geðþóttaákvörðunum ráðherra hægt að smella fingri og taka ákvörðun um lagningu sæstrengs.

Til að ljúka máli mínu á þeim punkti deili ég þeirri skoðun með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að verði málið samþykkt í þeim búningi sem hér liggur fyrir, og með tilliti til þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hér í þinginu og raunar í þjóðfélaginu í heild, hafi heldur dregið úr líkunum á því (Forseti hringir.) að sæstrengur verði lagður á næstu árum. Ég segi þetta með þeim fyrirvara að hvað gerist í óráðinni framtíð verður bara að koma í ljós, en það (Forseti hringir.) verður alltaf meðvituð og yfirveguð ákvörðun, eftir bæði lagalega og stjórnskipulega skoðun, (Forseti hringir.) sem leiðir til niðurstöðu um lagningu sæstrengs með alveg skýrum hætti.