149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í greinargerð tillögunnar í lok 2. kafla, sýnist mér, rétt fyrir upphaf 3. kafla, með leyfi forseta:

„Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.“

Nú er það þannig að greinargerðir skipta máli til að leiðbeina ráðherra við störf þegar við samþykkjum þingsályktunartillögur á Alþingi. Ég hef sjálfur tekið þátt í starfshópi sem vann eftir þingsályktunartillögu og leiðsögnin í þeim starfshópi var samkvæmt greinargerð. Það sama á við hér. Fyrirvarinn sem fjallað er um í greinargerð (Forseti hringir.) með þingsályktunartillögu er því sá fyrirvari sem hlýtur að gilda. Það er heimildin sem Alþingi veitir ráðherranum og honum er skylt að fylgja þeirri leiðsögn sem þar kemur fram.