149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að þetta sé að spilast svona núna. Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu er eingöngu þingsályktunartillaga, þ.e. tilmæli sem þingið beinir til ráðherra. Hún hefur ekki lagalegt gildi. Hún er lögskýring, í besta falli, eftir á. Hún beinir þeim tilmælum að eitthvað sé gert.

En þessi lagalegi fyrirvari verður settur fram, segir hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég held að það sé mjög mikilvægt akkúrat núna að þingmenn fái hann í hendur og geti tekið afstöðu til hans og hann sé þá rýndur af til þess bærum mönnum svo að við getum tekið afstöðu til þess hvað í honum felst og hvort hann sé þess eðlis að hann standist þegar á reynir.