149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að nefna eitt. Þeir lagalegu fyrirvarar sem hér eru gerðir út af þeim athugasemdum sem komu frá einum fræðimanni vegna þessa máls eru annars vegar þær þingsályktunartillögur og þau frumvörp sem liggja hjá hv. atvinnuveganefnd frá hæstv. ráðherra sem eru t.d. um sæstreng. Það liggur algjörlega fyrir. Hinn lagalegi fyrirvarinn sem vísað er til stendur í þingsályktunartillögunni sem við erum að ræða. Hann verður auðvitað tekinn beint upp í reglugerð þegar hún kemur. En það kemur aldrei reglugerð um innleiðingu áður en við afléttum stjórnskipulegum fyrirvara. Þannig virkar þingið, sama að hvaða EES-máli við erum að vinna. Það stendur skýrt í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri séu nú fyrir hendi á Íslandi sem geri mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB.

Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal reglugerð 713 um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila, eiga því ekki við (Forseti hringir.) og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu. Það er þetta orðalag sem tekið verður beint upp í þá reglugerð sem kemur að sjálfsögðu eftir að við samþykkjum það hér.