149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil eindregið hvetja hæstv. forseta til að hlutast til um að þessi mál verði skýrð. Þetta er atriði sem hefur komið til umræðu, m.a. í utanríkismálanefnd, þar sem þeir sérfræðingar sem þar mættu, lögfræðingar, voru spurðir út í lagalegu fyrirvarana. Þá kom skýrt fram að í fyrsta lagi hefðu þeir ekki séð þá, þeir voru að sjálfsögðu búnir að sjá þessa greinargerð og umræðuna um málið en þeir höfðu ekki séð lagalegu fyrirvarana, og bentu á að það væri lykilatriði að ef þeir ættu að halda, ef þetta ætti að standast stjórnarskrá með öruggum hætti, þyrftu lagalegu fyrirvararnir að vera þess eðlis að innleiðingin tæki ekki gildi, að lögin tækju ekki gildi. En hér er vísað í það að lagalegu fyrirvararnir séu bara einhver almenn orð í greinargerð og einhverjar óljósar yfirlýsingar í útlöndum þar sem menn viðurkenna það að Ísland sé eyja.