149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við komum aftur og aftur að meginefni þessa máls, sem er einfaldlega það að við getum ekki innleitt reglur orkupakkans hér á landi en á sama tíma sagt sem svo að einhver ákvæði hans eða reglugerða sem felast í pakkanum gildi ekki hér á landi. Við innleiðum reglurnar en svo segjum við: Við ætlum ekki að nota þetta hérna. Þetta mun ekki taka gildi hér.

Þetta gengur ekki upp. Auðvitað er þetta einungis til innanlandsbrúks og einskis annars. Svona fyrirvarar hafa ekkert gildi í raun. Þetta er ný tegund af sjónhverfingum.

Ég hef leitað eftir því við herra forseta að hann fái hingað ráðherra eða sérfræðinga til að skýra þetta betur út.