149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég var farinn að örvænta yfir því að ég þyrfti að fara upp í fundarstjórn forseta til að komast að.

Við ræðum síðara sinni þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi. Ég vil í upphafi máls þakka sérstaklega utanríkismálanefnd fyrir einstaklega vandaða vinnu í málinu. Ég verð að viðurkenna að sjálfur er ég fyrir allnokkru síðan orðinn nokkuð leiður á þeirri löngu umræðu sem um málið hefur verið því að ég hef ekki, þrátt fyrir að hafa mikið leitað skýringa á því, skilið það mikla málþóf sem hefur verið í gangi né þær fullyrðingar sem fleygt hefur verið fram, bæði í þessum sal og opinberri umræðu, um þriðja orkupakkann, og hvert þær fullyrðingar eru eiginlega sóttar.

Það sem skiptir mestu máli þegar við skoðum þetta mál er hvaða áhrif innleiðing þriðja orkupakkans hefur hér á landi. Allir þeir sérfræðingar sem komið hafa fyrir nefndir vegna málsins, öll sú umræða sem hefur átt sér stað á opinberum vettvangi og í þessum sal hefur leitt það með mjög skýrum hætti í ljós að þær gífurlegu fullyrðingar sem settar hafa verið fram um meint áhrif þessa orkupakka fást í engu staðist. Það er alveg kýrskýrt að þriðji orkupakkinn hefur engin áhrif á hvort, hvernig eða fyrir hvað við nýtum orkuauðlindir okkar, það er algjörlega skýrt, hann tekur með engum hætti á fullu forræði okkar yfir nýtingu orkuauðlinda okkar.

Þriðji orkupakkinn hefur heldur engin áhrif á það hvort hingað verði lagður sæstrengur eða ekki. Sama hvað þingmönnum kann að finnast um slíkan sæstreng kemur hann þriðja orkupakkanum ekkert við. Hann mun ekki breyta, draga úr eða auka líkur á lagningu sæstrengs með nokkru móti og þaðan af síður hefur innleiðing þriðja orkupakkans nokkur áhrif á eignarhald á orkufyrirtækjum landsmanna, sameiginlegum orkufyrirtækjum okkar sem eru í opinberri eigu í dag. Hann breytir engu þar um. Það eru engar kvaðir á ríkissjóð að selja eignarhlut eða breyta eignarhaldi sínu á Landsvirkjun, engar kvaðir varðandi eignarhaldið á Landsneti og svo mætti áfram telja, hvað þá að í því felist einhvers konar skuldbinding um einkavæðingu þessara fyrirtækja.

Það er líka ágætt að hafa í huga þegar við ræðum mál sem þetta, þar sem við erum að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara í samræmi við skuldbindingar okkar í EES-samningnum, að eins og endranær er það í aðdraganda þeirrar ákvörðunar, þegar við eigum í viðræðum innan sameiginlegu EES-nefndarinnar, þegar við eigum á þeim vettvangi með bandalagsþjóðum okkar innan EES-svæðisins í viðræðum um það hvort og með hvaða hætti skuli innleiða gerðir sem þessar, það er á þeim vettvangi sem við höfum öll tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri, gera fyrirvara okkar og færa með traustum rökstuðningi rök fyrir því hvers vegna einstök ákvæði skuli ekki gilda hér á landi og semja þá um það á þeim vettvangi hvort það sé unnt eða ekki.

Það er alveg ljóst af þeirri ítarlegu umræðu sem farið hefur fram um þetta mál yfir nokkurra ára skeið, því að rétt er að hafa í huga að málið hefur verið í meðhöndlun þingsins í a.m.k. sex, sjö ár samfleytt, að öll þau tækifæri sem voru til þess að koma slíkum athugasemdum eða breytingum á framfæri voru einmitt í meðferð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á árunum 2013–2016 undir forsæti formanns Miðflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þrátt fyrir ítrekaða aðkomu þingsins og undirnefnda þingsins að málinu á þeim tímapunkti sáu menn ekki ástæðu til að gera athugasemd við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Nú liggur það fyrir okkur að fullgilda þær ákvarðanir.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir öll þau rök sem færð hafa verið fyrir því að þær áhyggjur sem menn hafa haft um meint framsal á orkuauðlindum, meintar kvaðir um lagningu sæstrengs, meintar kvaðir um einkavæðingu orkufyrirtækja — þrátt fyrir að því hafi öllu verið hafnað á afgerandi hátt með rökum leggja andstæðingar þriðja orkupakkans það til að við höfnum málinu og vísum því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem væri í fyrsta skipti í 25 ára sögu EES-samningsins sem við gripum til slíkra úrræða. Þau eru vissulega fyrir hendi. Þetta er neyðarhemill sem við höfum rétt til að beita í EES-samstarfinu en með tilheyrandi óvissu um hvert það leiðir okkur. Það er auðvitað svo að daginn sem við hættum að innleiða sameiginlegar reglugerðir EES-markaðarins stefnum við því mikilvæga samstarfi okkar í uppnám. Fyrir því hafa verið færð mjög sterk rök af virtum sérfræðingum á því sviði.

Ég velti fyrir mér á hvaða vegferð þingmenn eru þegar hrært er upp í máli sem þessu með jafn innstæðulausum hræðsluáróðri og gert hefur verið í málinu. Það stendur ekki steinn yfir steini í rökstuðningi andstæðinga málsins. Öllum þeirra meginrökum um málið hefur verið hafnað með afgerandi sterkum rökum þar til bærra sérfræðinga. En á það skal ekki hlustað og áfram skal haldið að hræra í pottinum og reyna að valda hræðslu um meint áhrif þessa orkupakka sem þó finnst hvergi staður í reglugerð og efnistexta málsins sem hér er verið að ræða.

Þetta er gríðarlega ábyrgðarlaus umræða. Það verður líka að hafa í huga að þar ber Sjálfstæðisflokkur nokkra ábyrgð, því að margt af því orðfæri sem notað hefur verið hefur ítrekað verið notað af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í efasemdum sínum um meint fullveldisframsal í tengslum við EES-samstarfið, þrátt fyrir viljaleysi þess sama flokks til að breyta nokkru þar um með nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá til að heimila á afgerandi hátt það valdaframsal sem vissulega felst í EES-samstarfinu og lengi hefur verið rætt í þessum sal.

En þetta er ábyrgðarlaus umræða. Þetta er hreinn og beinn hræðsluáróður. Þetta eru algjörlega innstæðulaus rök. Í mínum huga er málflutningur sem þessi ekki til þess fallinn að auka traust á þessari stofnun. Ítrekað er verið að vísa til þess að það sé lítið traust á Alþingi, okkur sé ekki treystandi til að taka ákvarðanir sem þessar. Það finnst mér mjög alvarlegur málflutningur. Fólk á að geta treyst því að það sem hér er sagt sé satt og rétt, að þær staðhæfingar sem hér eru fluttar fram fyrir þjóð séu byggðar traustum rökum. Því er því miður ekki til að dreifa í þessu máli, heldur hafa andstæðingar málsins ekki hikað við að beita fyrir sig algjörlega innstæðulausum fullyrðingum þrátt fyrir að ítrekað sé búið að fara yfir og hrekja þær sömu fullyrðingar aftur og aftur í salnum og af sérfræðingum sem komið hafa fyrir viðkomandi þingnefndir.

Það leiðir hugann að því hvað vaki raunverulega fyrir andstæðingum málsins. Skyldi það vera það sama og vakir fyrir andstæðingum málsins í Noregi, sem hafa verið alveg grímulausir með það, norski Miðflokkurinn, að þeir vilja út úr EES-samstarfinu? Það er opinber stefna þess flokks. Það væri þá ágætt að heyra frá þingmönnum Miðflokksins hvort það sé stefna Miðflokksins hér. Öll önnur rök í málinu hafa verið flutt inn beint frá Noregi sem er þó með það meginfrávik frá sameiginlegum evrópskum orkumarkaði til samanburðar við okkur að Noregur er tengdur sameiginlegum evrópskum orkumarkaði, við ekki.

Vill Miðflokkurinn út úr EES-samstarfinu, þeim gríðarlega mikilvæga alþjóðaviðskiptasamningi, því sameiginlega markaðssvæði okkar innan Evrópu sem hefur skipt sköpum fyrir íslensku þjóðina á undanförnum 25 árum, sem hefur örvað hagvöxt, stórbætt lífskjör, stórbætt regluverk okkar, samkeppnisrétt, neytendavernd og svo mætti áfram telja? Það er ekki hægt að lýsa með orðum hversu mikilvægur samningurinn hefur verið fyrir almenning og fyrir íslensk fyrirtæki. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi ef hér er verið að stefna þeim samningi í hættu eða uppnám með jafn innstæðulausum málflutningi. Ef við ættum að byggja höfnun þessa máls á slíkum málflutningi í raun værum við fyrst þar að vinna gegn íslenskum hagsmunum.

Þetta ber hins vegar keim þeirrar umræðu sem við sjáum því miður meira og meira af um vaxandi einangrunarhyggju, ekki einungis hér á landi heldur um heim allan, í Evrópu. Brexit-umræðan ber auðvitað sterk einkenni þessa. Sama má segja um tollastríð Bandaríkja og Kína undir forystu Trumps Bandaríkjaforseta og svo mætti áfram telja. Þetta þykir mér miður, en það gefur okkur kannski tilefni til að ræða gildi alþjóðaviðskipta fyrir litla þjóð eins og okkur.

Við erum algjörlega háð markaðsaðgengi okkar um lífsviðurværi og lífskjör að sameiginlegum markaði EES-svæðisins. Þangað sækjum við stærstan hluta innflutnings okkar. Þangað flytjum við langstærstan hlut vöruútflutnings okkar og þjónustuútflutnings. Lífskjör væru hér mun lakari ef ekki nyti við þessa mikilvæga viðskiptasambands og viðskiptasamnings.

Mér þykir það sorgleg umræðan þegar maður horfir til þess að sífellt er beitt fyrir sig hugtökum eins og framsali á fullveldi, að við séum sjálfstæð og frjáls þjóð og að með samningum eins og EES-samningnum séum við á einhvern hátt að afsala okkur frelsi okkar eða fullveldi.

Í því samhengi er vert að rifja upp að í sjálfstæðisbaráttu okkar sem þjóðar voru ein meginrök forystumanna okkar í þeim efnum að rjúfa þyrfti einangrun landsins til þess að við gætum sjálf stýrt samskiptum okkar við aðrar þjóðir, við gætum beitt fullveldi okkar og fengjum að öðlast viðskiptafrelsi á við aðrar þjóðir. Þar fóru leiðtogar með framsýni og hugrekki til að fara um heiminn sem fullvalda, frjáls og sterk þjóð sem væri óhrædd við að beita fullveldi sínu með samningum við aðrar þjóðir, jafnvel þó að í slíkum samningum fælust á endanum samningar líkt og EES-samningurinn þar sem við veljum vissulega að framselja fullveldið að hluta til að efla og treysta viðskiptasambönd okkar. Það er hornsteinn EES-samningsins. Við höfum með honum byggt upp sameiginlegan innri markað 500 milljóna manna þar sem við getum átt viðskipti með vörur og þjónustu, þar sem við getum sjálf sótt vinnu og íbúar sama svæðis sótt vinnu hingað og ýmsa aðra þjónustu, líkt og við værum heima hjá okkur, þar sem sömu reglur giltu fyrir okkur öll, þar sem ekki væri mismunað á grundvelli þjóðernis, uppruna.

Lykilatriði í því hversu vel hefur tekist til með að þróa sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði á undanförnum 25 árum er einmitt sá eiginleiki að sömu reglur gilda alls staðar. Í því felst auðvitað að við skuldbindum okkur til að taka þær upp þegar þær hafa verið mótaðar og samdar. Það á við í þessu tilfelli. Við höfum haft öll tækifæri til að koma að mótun þeirra á vinnslustigi málsins á undanförnum árum. Við gerðum ekki athugasemdir við þetta fyrirkomulag meðan okkur gafst tækifæri til. Nú er komið að þeim tímapunkti þar sem við þurfum að uppfylla skuldbindingar okkar og þá á að rífa í neyðarhemil, stefna okkur í einhverja sneypuför sem við vitum ekkert hvar endar.

Ég held að við ættum að hafa það í huga þegar við ræðum þetta mál og ég held að við ættum að hafa það í huga þegar við greiðum atkvæði um þetta mál. Mikilvægi þess felst fyrst og fremst í áhrifunum af því að ef við myndum ekki samþykkja upptökuna, ef við myndum beita neitunarvaldinu með jafn léttvægum rökum og hafa verið færð í málinu um mikilvægi þess að beita neyðarhemlinum hér og nú. Slíkan neyðarhemil notum við ekki nema í ýtrustu neyð, nema raunverulega sé gengið á hagsmuni okkar. Það hefur ítrekað verið sýnt fram það af færustu sérfræðingum að það á engan veginn við í þessu máli. Sem fyrr segir stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi andstæðinga málsins og ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að ljúka málinu farsællega hér í þessum sal.