149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér þótti merkilegt að hlusta á hv. þingmann ræða svona mikið um EES-samninginn. Það var á hv. þingmanni að heyra að hann væri í raun bara í aðra áttina. Samningur er samningur og þar er ákvæði um það að ef upp komi ágreiningur sé hægt að leggja hann fyrir sérstaka nefnd, sem heitir sameiginlega EES-nefndin, og fá þá væntanlega viðunandi lausn. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann sé svo agalega hræddur við það, að það hafi aldrei verið gert í 25 ár o.s.frv. Það er eins og þetta sé allt Evrópusambandsmegin, þ.e. að Evrópusambandið ráði þessu. Við erum aðilar að þessum samningi þannig að við eigum okkar rétt í þessum efnum. Ég er svolítið hissa á hvernig hv. þingmaður leggur þetta upp og vil þá bara spyrja hann: Við hvað er hann hræddur? Er hann hræddur um að hér fari allt í kaldakol, samningurinn í uppnám o.s.frv. af því að við (Forseti hringir.) erum að fara lögformlega leið sem er í samningnum? Ég skil ekki samhengið þarna á milli.