149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að þetta sé í einhverju bríaríi, hér liggur mikið undir. Þjóðin er á móti þessu. Stuðningsmenn þeirra stjórnmálaflokka sem styðja þetta verkefni eru á móti þessu. Þetta er ekkert bríarí. Það er stórmál að fá úr því skorið, t.d. hvort þessir fyrirvarar haldi yfir höfuð. Ríkisstjórnin heldur því fram að þeir haldi en hún getur hins vegar ekki haldið því fram eða fullyrt að þeir muni halda. Það hefur ekkert reynt á það. Þess vegna er miklu skynsamlegra að fara þá lögformlegu leið sem felst í 102. gr. í EES-samningnum þar sem er þetta ótvíræða virka úrræði sem við getum gripið til í stöðu eins og þessari.

Hv. þingmanni varð líka tíðrætt um aðkomu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þessu máli. (Forseti hringir.) Kristallast vandinn ekki einmitt í þeirri ákvörðun sem var tekin af fulltrúa Íslands í EES-nefndinni 2009, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur?