149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna tvö atriði. Þingmaðurinn fór hér yfir öll atriðin varðandi yfirráð yfir auðlindum og einkavæðingu og ýmislegt svoleiðis sem búið er að moka frá. Í umræðum hef ég orðið var við að það eina sem stendur eftir er valdaframsalið. Þegar maður skoðar og les í gegnum reglugerðirnar og tilskipanirnar kemst ég bara að einni niðurstöðu, að þetta valdaframsal snýst um reglurnar sem varða sæstrenginn. Punktur. Ekkert hér innan lands, ekkert innan lands í Bretlandi. Valdaframsalið snýst um að ESA hafi aðkomu að þeim reglum sem settar eru um grunnvirki yfir landamæri. Búið. Ekkert þar á milli. Það væri mjög eðlilegt því að væntanlega vilja Bretar, ef sæstrengurinn verður lagður til þeirra, hafa eitthvað um hann að segja. Hann kemur til þeirra frá öðru landi. Við ráðum ekki ein yfir sæstreng sem nær til annarra landamæra og þeir ráða ekki einir yfir sæstreng sem nær frá þeim til okkar.

Ég vil (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki sameiginlegur skilningur.