149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum gert ýmsa fyrirvara, yfirleitt tímabundna fyrirvara, við innleiðingu varðandi EES-samninginn og þeir hafa vissulega haldið. En á síðari stigum, t.d. þegar við höfum verið að stækka sameiginlegan vinnumarkað svæðisins, hafa iðulega verið gerðir fyrirvarar eða gefin tímabundin undanþága, okkur hafa verið gefin tvö, þrjú ár til innleiðingar. Við höfum með varanlegum hætti undanskilið okkur frá ákveðnum ákvæðum EES-svæðisins þar sem höfum fært fyrir því rök að þau eigi ekki við hér á landi.

En í þessu tilviki verður ekkert litið undan því að við erum ekki tengd sameiginlegum orkumarkaði Evrópusambandsins og verðum ekki tengd honum nema ef við tökum ákvörðun um að tengjast honum. Það hefur komið algjörlega skýrt fram af hálfu allra sérfræðinga að slík ákvörðun verður aldrei tekin öðruvísi en að við ákveðum að gera það. Skýrari og sterkari getur fyrirvarinn ekki orðið.