149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við förum hér mikinn. Við höfum rætt um að höfnun þriðja orkupakkans hefði í för með sér pólitíska óvissu, ekki bara lagalega heldur pólitíska óvissu. Ég veit ekki betur en að við séum ávallt stödd í pólitískri óvissu. Er það ekki einfaldlega eðli milliríkjasamstarfs?

Fram hefur komið í umræðunni hve gagnlegar yfirlýsingar sameiginlegu EES-nefndarinnar og yfirmanns orkumála um fyrirvara þá sem gerðir eru við innleiðingu þriðja orkupakkans séu, vegna þess að þær séu pólitískt bindandi. Já, pólitískt bindandi; sem sagt: Ef gengið er á svig við fyrirvarana þurfa þeir að takast á við afleiðingarnar. Ég get ekki séð að það feli í sér mikla tryggingu. Þá er komin upp sú staða að utanríkisráðuneytið kallar eftir skýrslu um hagsmuni Íslands í málinu frá erlendum sérfræðingi sem lengi hefur starfað fyrir hönd annars ríkis sem þegar hefur samþykkt innleiðingu þriðja orkupakkans, starfað sem forseti EFTA-dómstólsins, verið við dóminn í 22 ár.

Svo ég vitni, með leyfi forseta, í orð Styrmis Gunnarssonar:

„Það er langt gengið, þegar íslenzka utanríkisráðuneytið kallar eftir hótunum erlendis frá um hvað kunni að gerast hafni Alþingi orkupakka 3. Hér skal fullyrt að frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi hefur slíkt aldrei gerzt fyrr.

Hverra hagsmuna er verið að gæta með slíkum vinnubrögðum?

Það verður fróðlegt að sjá, hvort einhverjir þingmenn á Alþingi Íslendinga sjái ástæðu til að gera athugasemd við vinnubrögð af þessu tagi.

Dettur einhverjum í hug að slíkt pantað álit hefði sagt eitthvað annað en þar kemur fram?

Dettur einhverjum í hug, að hægt sé að fá „hlutlaust“ álit frá þeim aðila, sem um ræðir?!“

Önnur lögfræðileg álit sem fjölluðu um innleiðingu þriðju orkupakkans tóku ekki nægilega til umfjöllunar hvernig standa mætti að samningagerð um undanþágu frá pakkanum nema að því leyti að tekið var fram að slíkt hefði aldrei verið reynt áður og því ríkti óvissa í málinu. Ég hefði viljað sjá þeirri spurningu svarað betur.

EES-samstarfið hefur þróast sífellt meira í þá átt að EFTA-ríkin fái litlu ráðið um eigin hagsmuni. Strangari og öflugri kröfur eru gerðar til að fá að taka þátt í innri markaðnum. Innri markaðurinn hefur að geyma marga kosti en með árunum hefur göllunum farið fjölgandi. Nú er staðan sú að ekki nægir að við fylgjum reglugerðum Evrópusambandsins heldur á beinlínis að skikka okkur til að fara eftir fyrirmælum stjórnvalda Evrópusambandsins. Tveggja stoða kerfið gildir því aðeins í orði en ekki á borði.

Ég velti því fyrir mér hversu langt Evrópusambandið gæti gengið áður en þingmenn meiri hlutans í þessu máli myndu telja þá hagsmuni sem felast í innri markaðnum vega minna en þeir ókostir sem fylgja því að innleiða sífellt þyngra og inngripsmeira regluverk sambandsins. Þykir mér málflutningur þeirra bera með sér að þátttaka í innri markaðnum sé í raun svo mikilvæg að slíkt hagsmunamat eigi í raun ekki að fara fram þegar þingmenn hugleiða innleiðingu á gerðum EES.

Raunin er samt sú að þegar við hugleiðum innleiðingar á EES-gerðum ber okkur að meta hvort gengið sé of langt. Ef við metum það svo þurfum við einfaldlega að segja stopp.

Hagsmunir okkar af því að fá að ráða yfir eigin orkumálum eru okkur hjartans mál. Þegar þjóðin gekk inn í EES-samstarfið hafði almenningur miklar áhyggjur af áhrifum samstarfsins á þjóðarauðlindir. Þær áhyggjur birtust á þeim tíma í umræðu um áhrif samstarfsins á stjórn okkar yfir auðlindum hafsins. Á þeim tíma var raforkuframleiðsla þjóðarinnar minni og Íslendingum datt ekki í hug að slíkt samstarf kynni að fela í sér afskipti EES af innlendri orkuframleiðslu. Það skiptir engu hvort slíkt hafi falist í samningnum frá upphafi. Þjóðin taldi svo ekki vera og hafði því ekki færi á að taka afstöðu til málsins með það í huga.

Síðan þá hefur orkuvandi heimsins farið vaxandi en orkuframleiðsla á Íslandi hefur hins vegar aukist. Það er alveg ljóst að íslenska þjóðin er að meiri hluta andvíg því að erlend yfirvöld hlutist til um orkumál hér á landi. Alveg sama hvaða fyrirvara við gerum í málinu mun sá dagur koma að Evrópusambandið krefji okkur um að taka virkan þátt í að leysa orkuvandamál Evrópuríkja. Við þurfum að semja um að orkumál Íslendinga standi fyrir utan EES-samstarfið.

Við eigum því ekki að fresta þeirri óvissu sem felst í slíkum viðræðum heldur eigum við að hefja vinnuna núna strax.

Það hefði að sjálfsögðu verið óskandi að samið hefði verið um undanþágu þegar málið fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina á árinu 2014 undir ríkisstjórn þáverandi forsætisráðherra, hv. þm. og formanns Miðflokksins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og á málefnasviði þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. En því miður var það ekki gert. Ef það ríkir sameiginlegur skilningur milli sameiginlegu EES-nefndarinnar og yfirmanns orkumála ESB og utanríkisráðherra um að ekki verði innleidd í landslög ákvæði þriðja orkupakkans um ágreining um aðgang að sæstreng hlýtur að mæta okkur skilningur ef við viljum semja um að orkumál Íslands standi utan samstarfsins.

Hversu hollt er þetta samstarf okkur í EES ef við fáum ekki einu sinni undanþágu frá innleiðingu gerða sem eiga, að því er virðist, ekki hafa nokkur einustu áhrif? Þátttaka Íslands í EES-samstarfinu er hinum aðildarríkjunum vonandi verðmæt. Við eigum að geta, samkvæmt samningi, samið um að við tökum ekki þátt í EES-samstarfi að því leyti sem lýtur að flutningi á t.d. raforku á milli landa. A.m.k. eigum við að láta reyna á slíkar viðræður.

Hér greinir okkur á um hvaða leið skuli valin í milliríkjasamskiptum. Mín afstaða er sú að við eigum að reyna enn frekar að semja um undanþágu frá því samstarfi EES sem lýtur að flutningi á raforku á milli landa. Sú afstaða mín byggir á þeirri sannfæringu minni að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið ef sú orka sem er framleidd úr auðlindum þjóðarinnar sé nýtt í þágu hennar.

Helsti orkuframleiðandi landsins, Landsvirkjun, styður innleiðingu þriðja orkupakkans ásamt því að styðja hugmyndir um lagningu sæstrengs og Evrópusambandið hefur sæstreng til Íslands á lista yfir þróunarverkefni. Erlendir aðilar hafa á síðustu mánuðum kynnt áform um að koma sér upp a.m.k. í tveimur vindorkuverum með yfir 100 MW framleiðslugetu. Einkaaðilar keppast um að kaupa virkjunarrétt í ám landsins og sækja þar um virkjanaleyfi.

Carl Baudenbacher sjálfur nefnir í álitsgerð sinni að ein helsta ástæða þess að Evrópusambandið myndi líta höfnun þriðja orkupakkans alvarlegum augum sé sú að orkumál hafa verið mjög fyrirferðarmikil í stefnumótun Evrópusambandsins. Bendir hann m.a. á ræðu þáverandi orkumálastjóra Evrópusambandsins, Günther Oettinger, frá 6. maí 2014, þar sem, með leyfi forseta, hann tók fram að „samræmdur evrópskur orkumarkaður væri mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“

Það er því alveg ljóst hvert stefnir. Þrátt fyrir það að við tölum hér um að þriðji orkupakkinn segi ekki neitt, hann skikki okkur ekki til að leggja sæstreng — það er alveg rétt. En þessir fyrirvarar sem er verið að tala um, og ég ætla að vísa hér í okkar ágæta Davíð Þór Björgvinsson sem kom með álit ákveðins lögfræðilegs álitaefnis — því miður, eins og oft vill nú verða, eru þessi álit pöntuð utan um ákveðinn ramma. Það er ekki tekið heildstætt á öllu saman. Ekki öllum þeim álitaefnum sem í rauninni kunna upp að koma. Við sjáum að við erum að horfa á mismunandi hluti.

Við gerum okkur grein fyrir því að það er búið að innleiða orkupakka eitt, búið að innleiða orkupakka tvö. Nú á að innleiða orkupakka þrjú, á borðinu er orkupakki fjögur og verður sennilega innleiddur í Evrópu á þessu ári. Hvar stöndum við þá? Ber okkur ekki skylda sem fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi að horfa heildstætt á þá þróun í orkumálum sem er stefnt að í Evrópusambandinu? Ber okkur ekki skylda til þess virkilega að átta okkur á því að Evrópa er á allt öðrum stað hvað lýtur að þörf á grænni orku en við hér? Þótt við getum verið glöð með það sem við höfum í okkar grænu orku breytir það ekki þeirri staðreynd að litla eyjan Ísland mun ekki geta annað þessum markaði og þeirri kröfu sem ég veit að mun verða til okkar gerð.

Mér finnst í rauninni líka svolítið hlálegt að tala um einangrunarsinna, popúlista og ég veit ekki eiginlega hverju er ekki slegið upp, hræðsluáróður. Er þetta einhver hræðsluáróður þegar maður vill kalla eftir því að látið sé reyna á samning sem við erum búin að vera aðilar að í 25 ár? Hverjum dettur í hug að standa hér meðan hv. fyrrverandi þingmenn og ráðherrar, fólk úr öllum flokkum sem er úti í samfélaginu, kallar eftir því að við reynum að horfa á staðreyndir málsins heildstætt? Þeir eru á móti innleiðingu þriðja orkupakkans, a.m.k. á móti því að við látum reyna á samningsstöðu okkar gagnvart því að fá undanþágu frá því að þurfa yfir höfuð að vera að tala um okkar orkumál inni í húsakynnum Evrópusambandsins.

Það er gjarnan sagt að þessi orkupakki þrjú geri ekki nokkurn skapaðan hlut. Þrátt fyrir það sem er verið að innleiða hér þar sem ACER er að koma inn og við erum að fara að gera ýmsa hluti í sambandi við að taka Orkumálastofnun út og gera hana algjörlega sjálfstæða og undanþegna öllu eftirliti frá íslenska ráðherranum. Nei, það eru aðrir sem þurfa að líta til með íslenskri Orkumálastofnun og senda henni tilskipanir um hvernig hún eigi að bregðast við og vinna úr sínum málum.

Það er verið að tala um neytendavernd. Ég bara spyr: Eru einhverjir neytendur yfir höfuð betur settir en íslenskir neytendur á raforkumarkaði? Hvað er það sem við þörfnumst frá Evrópusambandinu og EES-samningnum í sambandi við orkumál? Hvers vegna er verið að tala endalaust? Ef eitthvað er hræðsluáróður er það hjá þeim sem segja að við séum að stofna EES-samningnum í hættu með því að ætla að láta reyna á það hvort þetta er alvörusamningurinn eða ekki. Er hann tvíhliða, hæstv. forseti, eða er hann bara einhliða? Höfum við bara akkúrat ekkert um það að segja um hvað við erum að semja?

Það er með ólíkindum að hlusta á hvernig á að þvinga í gegn alls konar, án þess að það sé tekin málefnaleg afstaða til málanna. Að þó að við séum með ólíka sýn skuli endalaust verið að draga eitthvað fram — þetta er pólitík, það er akkúrat þetta sem er pólitík — til að láta andstæðinga líta út eins og hálfgerða bjána. Reyndu að ná þér í tíu atkvæði á dag út af því að pólitískur andstæðingur lítur út eins og bjáni. Það virkar bara í báðar áttir, virðulegi forseti. Ef eitthvað er kjánalegt er það að ætla að horfa fram hjá því að við erum búin að eiga í mjög góðu sambandi í gegnum Evrópska efnahagssvæðissamninginn okkar, mjög góðu sambandi, í 25 ár. Við höfum séð hvernig efnahagslíf okkar hefur náð að blómstra í gegnum þennan samning. Við höfum getað fleytt vörunum okkar inn á innri markað Evrópusambandsins.

En við erum samt sem áður ekkert skuldbundin til að segja: Halló, við viljum ekki og getum ekki ráðið yfir okkar eigin raforkuauðlindum. Hvers vegna að vera að blanda raforkunni inn í hinn almenna neytendamarkað? Þrátt fyrir að raforkan sé vara? Jú, það er slegið á puttana á manni og sagt að maður sé líka algerlega úti í skurði þegar maður er að tala um það. Jú, raforkan er skilgreind sem vara. Hún er vara sérstaks eðlis.

Allir hafa svarað þér því, Inga Sæland, að okkur ber engin skylda til þess að leggja sæstreng. Einkaaðilar hafa ekkert um það að segja þó að þeir vilji koma vöru sinni á markað af því við erum svo spes að við bæði bökum kökuna og fáum að éta hana alla líka.

Það kom líka fram í máli okkar ágæta gests sem okkur var sendur á vegum utanríkisráðuneytisins, Carls Baudenbacher, að eftir að þessi Brexit-staða kom upp hefur færst mun meiri harka inn í Evrópusambandið hvað lýtur að því að þeir eru ekkert að taka aðildarríkin og þá sem vilja jafnvel standa fyrir utan innri markaðinn eins og Sviss, hann nefndi Sviss sérstaklega, neinum sérstökum silkihönskum. Hann sagði: Það færist orðið meiri harka í það að fylgja eftir samningnum og láta aðildarríkin standa við það sem þeim er sagt að standa við.

Það er í rauninni alveg með ólíkindum að Davíð Þór Björgvinsson skyldi segja það við okkur í utanríkismálanefnd að þessi svokallaði lagalegi fyrirvari, stjórnskipulegi fyrirvari sem er verið að sveifla hér, hægri vinstri, væri ekki vera pappírsins virði. Hann væri einungis sýndarmennska til heimabrúks.

Það er nokkuð ljóst og ég geri mér alveg grein fyrir því að það mun ekki reyna á neitt af þessu og ekkert af þessu mun virkjast fyrr en við höfum lagt sæstrenginn, sem er á teikniborðinu, sem þriðji orkupakkinn skipar okkur ekki að leggja og það hef ég aldrei sagt. En það breytir ekki þeirri staðreynd að virkjun á 7. og 8. og 9. gr. þriðja orkupakkans verður ekki fyrr en sæstrengur hefur verið lagður. Hvað þá? Það er þá sem við verðum að láta reyna á hinn stjórnskipulega fyrirvara, ekki fyrr.

Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hvers vegna í veröldinni höfum við ekki gengið frá þessu máli fyrr? Af hverju fórum við ekki í þessa vinnu strax? Er eitthvað afsökunarvert að segja: Heyrðu, við bara föttuðum þetta ekki? Við bara innleiddum orkupakka eitt og tvö og það er bara „af því bara“? Þá verðum við að innleiða þennan, því annars lítum við bjánalega út gagnvart Evrópusambandinu eða EES — eða hvað, gagnvart hverjum?

Þegar við höfum gert mistök, eins og ég tel að við höfum gert með því að gera akkúrat ekki neitt nema að innleiða orkupakka eitt og tvö, án þess að láta reyna á það fyrir sameiginlegu EES-nefndinni hvort þeir væru tilbúnir að semja þannig að við þyrftum ekki að taka orkumálin yfir höfuð inn í samninginn, að við þyrftum yfir höfuð ekkert að vera að hlutast til um íslenskan orkumarkað og hann væri alfarið á okkar höndum. Hvort sem það væri þá vegna þess að Landsvirkjun — mér skilst að hér séu allir þingmenn sammála um að við eigum að eiga Landsvirkjun, þjóðin á að eiga Landsvirkjun og við viljum vera með okkar eigin orkumálastefnu á hreinu. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ef sú staða kemur upp að við munum leggja sæstreng á náttúrlega absolútt að gera það á okkar forsendum, ekki forsendum EES eða Evrópusambandsins.

Mig langar að lokum að nefna eitt sem mér þótti náttúrlega mjög, mjög spes: Það var þegar hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók af allan vafa fyrir réttu ári síðan í þessu ræðupúlti, og með leyfi forseta ætla ég að vísa beint í hann, orðrétt:

„Veltum því fyrir okkur hvað við höfum með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða raforkumál sem eru í einangruðu mengi á Íslandi úti í Brussel. Hvað höfum með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins raforkumál af eyjunni Íslandi? Er það mál sem varðar innri markaðinn með beinum hætti […]?“

Það er aldrei spurningin um það hvort þeir sem tala eins og ég tala hér í dag séu á móti EES-samningnum og séu vanþakklátir fyrir það kraftaverk sem við urðum aðnjótandi með því að fá frjálsan aðgang að innri markaði Evrópu. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um orkumál þjóðarinnar. Það eru þau sem við erum að tala um hér og nú. Þetta snýst um hvort þegar kemur að innleiðingu fjórða orkupakkans, hins svokallaða vetrarpakka, hvort það verði þá sem við ætlum að reyna að semja. Eða er það þegar fimmti pakkinn kemur, um vatnið? Er það þá sem við ætlum að gera það? Hvenær er rétti tíminn, virðulegi forseti, til að taka af skarið og sýna að við erum í tvíhliða samningi í Evrópska efnahagssvæðinu? Hann virkar í báðar áttir, það er nokkuð ljóst.

Ég held að þetta sé orðið gott að sinni. Ég vona bara að allir séu æstir í að spyrja mig um eitthvað. Ég er alla vega æst í að svara.