149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú höfum við hlustað á hv. þm. Ingu Sæland fara yfir sýn á þetta mál sem byggist alfarið á því að afneita bókstaflega öllum fullyrðingum allra fræðimanna sem hafa farið yfir málið, (Gripið fram í.) láta eins og þær fullyrðingar eigi ekki neitt erindi upp á pallborðið og jafnvel ganga svo langt að láta eins og einn tiltekinn fræðimaður, Carl Baudenbacher, hafi á einhvern hátt ætlað sér að ljúga fyrir hönd ríkisins sem mér þykir fráleit hugmynd. Þessi ágæti fræðimaður, Carl Baudenbacher, er Svisslendingur, hann er ekki frá landi sem tilheyrir EES-samningnum. Hann var kjörinn í EFTA-dómstólinn fyrir hönd Liechtenstein, og nota bene EFTA-dómstóllinn tilheyrir Íslandi ekki frekar en öðrum löndum, þar sem hann sat í mjög langan tíma og hefur skrifað 40 bækur af ýmsu tagi um lögfræðileg álitaefni. Hann skrifaði m.a. bókina um það hvernig EFTA-dómstóllinn virkar og hvernig ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Mér finnst fráleitt að það skuli vera gefið í skyn, af hálfu hv. þingmanns, að þessi fræðimaður myndi á einhvern hátt ákveða að nú væri kjörið tilefni til að fórna mannorði sínu með því að segja ósatt á nefndarfundi Alþingis. Mér finnst það fráleitt.

Ég verð að spyrja hv. þingmann hvort hún trúi því raunverulega sem hún er að segja, að þessi fræðimaður myndi skaða orðspor sitt með þessum hætti. Mér finnst a.m.k. fráleitt að hugsa til þess. Mér endist ekki tími til að fara yfir allar villurnar sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. (IngS: Þú ert alltaf í villunum, Smári. Nefndu villurnar.) — Ég fer yfir villur. (Gripið fram í.)

(Forseti (WÞÞ): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Ekki lengur, herra forseti.