Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er í annað sinn sem hann kemur í andsvar við mig og í bæði skiptin sér hann ástæðu til að tala um að hér standi ég og sé bara í bullinu og með endalausar rökvillur í hina og þessa áttina. Í hvorugt skiptið hefur hann nefnt eina einustu og því ætla ég að gefa honum færi á að svara því hér á eftir og tína til þó ekki væri nema eina og gefa mér kost á að svara henni.

Hann segir að ég sé að gefa í skyn að menn ljúgi. Það er algjörlega út úr korti. Ég vitnaði beint í Styrmi Gunnarsson sem bendir á að það sé langt í það að vera yfir allan vafa hafið að maðurinn sé ekki hlutdrægur. Eðli málsins samkvæmt hlýtur hv. þingmaður að geta séð það. Ég held hann ætti að líta aðeins inn á við þegar hann kemur með svona sleggjudóma og leggur mér orð í munn eða ímyndar sér að ég sé hugsa eitthvað sem er algerlega út úr kú og korti.

Já, og þegar hv. þingmaður er að tala um fræðimenn tók ég það sérstaklega fram að þeir voru spurðir í ákveðnum tilgangi um ákveðin álitaefni, ekki látnir taka heildstætt á því, allt einkenndist meira og minna af hinum svokallaða lagalega, stjórnskipulega fyrirvara. Það var enginn að spyrja þá um hver væri raunveruleg staða okkar að þeirra mati gagnvart samningssambandinu við Evrópska efnahagssvæðið. Það var t.d. stór spurning sem mér hefði fundist, hv. þingmaður, vert að spyrja.

Ég met þetta samstarf og mér finnst samningur vera samningur. Mér finnst oft látið í veðri vaka að hann sé bara akkúrat enginn samningur. Eins og þessi ágæti maður sem þú vísaðir í sagði: Ef við göngumst ekki við því sem okkur er sagt þá verða ófyrirséðar afleiðingar af því. Hvað þýðir það, hv. þingmaður?