149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki verið að hlæja að eða pískra um hv. þingmanni, fjarri lagi. Við erum aðilar að þessum samningi af því að við samþykktum að vera aðilar að honum. Við höfum sífellt valmöguleika um aðlögun, meira að segja í því ferli þegar ESB er að búa til reglurnar sjálft og svo aftur þegar málið kemur inn á sameiginlega vettvanginn. Þetta snýst ekkert um það að við séum að hleypa erlendum áhrifum og erlendu valdi yfir okkur óviljug, alls ekki. Við veljum að gera þetta og það er hluti af því sem við erum að gera hér. Við erum að velja hvort við ætlum að gangast undir þessar reglur eða ekki. Og þegar maður skoðar reglurnar sem varða einmitt neytendavernd, sem varða aðskilnað framleiðslu og dreifingar, sem varða alþjónustu, sem er mjög mikilvæg, sem varða (Forseti hringir.) orkuöryggi, sem er mjög mikilvægt fyrir mörg svæði á Íslandi, hvernig við setjum upp orkuáætlun innan hvers lands, fyrir Ísland — og við tökum þá ákvörðun.