149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég var því miður ekki stödd á Akureyri í febrúar 2018 og ég get ekki tjáð mig neitt frekar um það. En hvort sæstrengur verður lagður, og þá væntanlega á grundvelli þriðja orkupakkans, finnst mér sú spurning eiginlega snúast um forráð yfir löggjöfinni. Ég er á móti innleiðingu þriðja orkupakkans og allri annarri íhlutun erlendra aðila í íslenskri löggjöf er varðar orkumál. Efni þriðja orkupakkans skiptir kannski ekki höfuðmáli heldur að hann er til, hann er þarna. Alþingi Íslendinga á að ráða orkumálum en ekki ákveða þau eftir tilmælum EES-nefndarinnar. Þess vegna vil ég að við semjum um að orkumál Íslendinga standi utan EES-samstarfsins og ef svo fer að þeir vilja ekki vinna með okkur á þeim forsendum verðum við bara að mæta því. En ég er sem sagt á móti þriðja orkupakkanum vegna þess að hann felur í sér íhlutun erlendra aðila í íslenskri orkulöggjöf.