149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, og það hefur komið fram hjá fræðimönnum og ágætum gestum sem hafa sótt okkur heim, að það er skortur á grænni orku í Evrópu. Hvert er verið að stefna yfir höfuð með þessum innleiðingum almennt, bara hér hjá okkur? Þriðji orkupakkinn er eitt skref í áttina að því markmiði sem löngu hefur verið lagt í orkumálum í Evrópu. Við stöndum frammi fyrir loftslagsvá eins og við vitum og fjórði orkupakkinn, hinn svokallaði vetrarpakki, ber það með sér þar sem er verið að reyna að tengja saman grænu orkuna versus loftslagsmálin. Það er bara í eina átt sem stefnir, það er sameiginlegur innri orkumarkaður í Evrópu. Það er bara þannig, að reyna að gera sem best úr honum.

Það er Angela Merkel, ég var líka búin að lesa það, en ég er ekki alveg þar. En persónulega stend ég þar enn föstum fótum að mér finnst að okkur hafi borið skylda til þess að láta reyna á EES-samninginn og ekki þurfa að láta reyna á það þegar og ef hinn svokallaði stjórnskipulegi fyrirvari heldur ekki eða hvað kemur upp úr honum. Sagt er að hann sé ekki neitt, bara til heimabrúks, en þá verður aldrei neitt útkljáð að lokum. Það verða alltaf dómstólar sem eiga síðasta orðið um það hvernig okkur hefur tekist til í þessu máli.