Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þrusugóða ræðu. Það er svolítið sem mig langar til að bera undir hv. þingmann, t.d. það að þó efni þriðja orkupakkans feli ekki í sér að heimilt sé að leggja sæstreng þá virðist nú vera, a.m.k. að mínu mati, alveg ljóst hvert Evrópusambandið stefnir til lengri tíma litið í þeim efnum. Það hefur verið það sem ég er alltaf að tala um.

Mig langar til að nefna sem dæmi orðalag úr reglugerð nr. 714, sem er meðal þeirra gerða sem er í þriðja orkupakkanum. Í 1. gr. kemur fram að:

„Innri raforkumarkaðurinn, sem komið hefur verið til framkvæmda í áföngum frá 1999, miðar að því að koma á raunverulegu vali fyrir neytendur í bandalaginu, hvort sem þeir eru borgarar eða fyrirtæki, nýjum viðskiptatækifærum og meiri viðskiptum yfir landamæri, í því skyni að ná aukinni skilvirkni, samkeppnishæfu verði og hærra þjónustustigi, og að stuðla að afhendingaröryggi og sjálfbærni.“

Það er eiginlega um þetta sem mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann í rauninni það sem ég er búin að vera að reyna að tala um hér í dag — hver telur hann að sé meginmarkmiðið Evrópusambandsins hvað lýtur að orkusýn framtíðarinnar hjá þeim?