149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætisupptalning á því markmiði, að komast frá mengandi orku, að byggja upp orkuöryggi fyrir neytendur og smærri fyrirtæki. Það er sérstaklega fjallað um það í pakkanum hvað alþjónustuna varðar að landsbundin yfirvöld, hvert aðildarríki, á að koma á orkuöryggisstefnu, áætlun, fyrir heimili í landinu og má tiltaka þar líka smærri fyrirtæki. Þetta er eitthvað sem er algerlega nauðsynlegt að gera og hefur verið nauðsynlegt að gera á Íslandi í þó nokkurn tíma. Ég hef verið á nefndarfundum þar sem Landsnet kemur og segir: Okkur vantar áætlun af því að við vitum ekki hvar við eigum að leggja línur. Á meðan t.d. Eyjafjarðarsvæðið og Vestfjarðasvæðið segja: Okkur vantar rafmagn.

Þetta er nákvæmlega það sem þau eru að glíma við í Evrópu líka. Þess vegna er svo rosalega mikilvægt að við gerum það sama en þau eru bara búin að gera það fyrir okkur, og mjög vel líka. Þau hafa gert það mjög vel í mörgum öðrum innleiðingum, t.d. með fjarskiptafyrirtæki. Þar hefur verð á símtölum lækkað, reikigjöldum og nettraffík. Þar stöndum við mjög vel hvað verð varðar. Og ekki er sameiginlegt verð þar þó að við séum tengd með neti og ljósleiðurum fram og til baka. Ekki erum við með sömu verð og í öðrum löndum. Ekki þurfum við nauðsynlega að vera með hærra verð á internettengingum hérna á Íslandi þó að við séum samtengd þar á nákvæmlega sama hátt.

Ég sé því ekkert slæmt við þessa sýn um orkuöryggi, um afhendingaröryggi, um græna stefnu í orkumálum og hef ekkert nema gott um það að segja.