149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í málflutningi hv. þingmanns er ekkert í þessu sem knýr okkur til þess að leggja sæstreng. Það á við um öll önnur lönd í Evrópu. Evrópusambandið er náttúrlega bara að semja þessa sameiginlegu reglur fyrir Evrópusambandið sem slíkt og er þess vegna aðallega að hugsa um það. Þegar kemur að hvata til þess að byggja upp strengi á milli landa þá er hann þó nokkur í Evrópu af því að vegalengdir eru miklu styttri. Samt er engin kvöð á um að leggja þá strengi og ekki heldur hérna. Kostnaðurinn við að fara í lagningu sæstrengs og tengjast því grunnneti er náttúrlega bara fáránlegur miðað við þær aðstæður sem við erum í. Evrópusambandið pælir náttúrlega ekkert í því.

Við erum í orkuvanda. Við erum með mjög græna orku, en við tökum gríðarlega mengandi iðnað hingað til að nota þá orku í meðan við gætum miklu frekar tekið umhverfisvænan iðnað til að nota sömu orku í og leyft meira mengandi iðnaði að vera þá einhvers annars staðar sem kostar þá meira og verður þá ekki eins samkeppnishæfur. Það kemur út á jöfnu að minnsta kosti, að haga því þannig. (Forseti hringir.) Við þurfum ekki að taka mengun annarra á okkur, alls ekki. Við eigum frekar að huga að uppbyggingu á samkeppnishæfum og grænum iðnaði.