149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hlustaði gaumgæfilega á ræðu hv. þingmanns. Það kom berlega í ljós að hann óttast mjög pólitískar afleiðingar þess að við samþykkjum ekki þessa innleiðingu. Ég er alveg hjartanlega sammála honum í því að við eigum ekkert að láta stjórnast af pólitískum ótta en ég gat ekki annað heyrt á hv. þingmanni en að hann léti einmitt pólitískan ótta stjórna sér í málinu. Ef svo er ekki getum við farið hina lögformlegu leið, hv. þingmaður, að nýta okkur 102. gr. í samningnum, að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina og fá þar niðurstöðu, sem við getum vonandi unað við, og varanlega undanþágu.

Hv. þingmaður, það eru þversagnir í ræðu þinni. Ég ætla bara að segja alveg eins og er: Þú óttast þessar afleiðingar — og þær eru pólitískar — en þú ert ekki tilbúinn til að nýta sér þá lögformlegu leið sem við höfum í samningnum.

(Forseti (WÞÞ): Ég vil minna hv. þingmenn á að gæta að réttum ávarpsorðum.)