149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Þórðarson hefur ekki hlustað vel á ræðu mína. Ég var einmitt að rökstyðja að það eru engin efnisleg rök fyrir því að hafna því að innleiða orkupakkann vegna þess, þvert á það sem haldið hefur verið fram í villandi málflutningi, m.a. hv. þingmanns, að við erum ekki á neinn hátt að afsala okkur neinum þeim hagsmunum sem gefa tilefni til þess að ganga þannig fram í samstarfi innan EES eins og lagt er til.

Við erum ekki að afsala okkur yfirráðum yfir orkuauðlindunum. Við erum ekki að taka neina ákvörðun um lagningu sæstrengs eða undirgangast neinar slíkar skuldbindingar. Við erum ekki að taka neina ákvörðun sem hefur áhrif á það hvernig við stjórnum eignarhaldi eða nýtingu á orkuauðlindunum — þvert á það sem er sagt eða látið í veðri vaka í þessum þingsal og utan þings. Þess vegna segi ég: Það eru engin efnisleg rök (Forseti hringir.) sem standa undir því að hafna því að innleiða þriðja orkupakkann.