149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:29]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er satt að segja dálítið hissa á þessari fyrirspurn vinar míns, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar frá Sauðárkróki, því að við erum báðir þaðan. Þetta eru skref sem hv. þingmaður tók og leiddi okkur inn í. Ég hygg, ef ég fer rétt með og man, að hann hafi a.m.k. ekki í ráðherratíð sinni haft áhyggjur af því þegar komist var að þeirri sameiginlegri niðurstöðu EES-ríkjanna að það ætti að flýta innleiðingu þriðja orkupakkans.

Ég hef ekki sömu áhyggjur, hæstv. forseti, og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. Við ráðum ferðinni. Við munum vinna að því, og það er þegar tekið til við að vinna að fjórða orkupakkanum, að greina hagsmuni okkar Íslendinga, hvar þeir liggja o.s.frv. (Forseti hringir.) Það gerum við á okkar forsendum eins og við höfum alltaf gert og eigum að gera. Við gætum hagsmuna Íslendinga og það hefur svo sannarlega verið gert í þessum efnum.