149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að snúa út úr orðum mínum með ýmsum hætti og þetta var dálítið snjallt. Ég var ekki að gera lítið úr flokkssystur minni með neinum hætti. Ég var ekki að gera það tortryggilegt með neinum hætti eða gagnrýna það að hér hafi raforkulögum verði breytt árið 2015 undir forystu þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður sat í og var utanríkisráðherra og tók þátt í að móta þriðja orkupakkann með þeim hætti sem liggur nú fyrir. (Gripið fram í.) Við skulum ekki gleyma því og verum ekki með útúrsnúninga.

Ég var ekki að gera það tortryggilegt, ég var að minna á að það var sameiginleg ákvörðun ríkisstjórnar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að taka þessi skref. (Gripið fram í.) Ég held að það hafi verið skynsamleg skref. (Gripið fram í.) Ég, hv. þingmaður, sagði aldrei að við hefðum lofað Norðmönnum einhverju, að við hefðum lofað. Ég var bara að segja … (GBS: Skoðaðu ræðuna þína.) — Forseti, er ekki í lagi að ég fái að hafa orðið?

(Forseti (WÞÞ): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Það liggur eitthvað illa á hv. þingmanni. Það eina sem ég sagði var að í samskiptum okkar í sameiginlegu EES-nefndinni, við Norðmenn, við Liechtenstein og (Forseti hringir.) við Evrópusambandið, gengum við fram með þeim hætti að þeir gátu og máttu standa í góðri trú um að við myndum fylgja málinu alla leið, máli sem hv. þingmaður leiddi lengst af.