149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndir eru góðar. Innri orkumarkaður í Evrópu nú um stundir byggir á frjálsum viðskiptum með raforku á milli landa. Það er sagt að við vitum vel hvert stefni með innri orkumarkað Evrópu. Nú spyr ég hv. þingmann: Hvar kemur sú stefna fram? Getur hann bent okkur á það hvar þá stefnu er að finna? Það er líka sagt að verið sé að færa Orkustofnun undir erlend yfirráð. Nú er það þannig að Orkustofnun hefur um tug hlutverka samkvæmt lögum. Eitt þeirra, eftirlit, verður gert að sjálfstæðri einingu með þriðja orkupakkanum. Hvernig rímar það við að verið sé að færa Orkustofnun í heild sinni undir erlend yfirráð?

Og að lokum: Getur hv. þingmaður bent á eitt eða fleiri dæmi um að ACER hafi komið að ráðstöfun orkulinda í einhverju ESB-landi eða EES-landi eða fyrirskipað tengingar á milli landa, t.d. sæstreng? Þeir eru nokkuð víða í Evrópu. Það væri gaman að fá skýr svör við því, ekki einhverja ræðu um lögfræðilega fyrirvara heldur við spurningunni um hvernig stefnan um innri markað, sem á að vera einhvers konar yfirmarkaður, um Orkustofnun, er færð undir erlend yfirráð.

Síðast en ekki síst: Hvar hefur það gerst að ACER hafi hlutast til um orkuframleiðslu einhvers lands eða tengingu milli landa?