149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé tiltölulega auðvelt að nálgast stefnu Evrópusambandsins í orkumálum. Ég held að hv. þingmaður þekki hana líka alveg ágætlega (ATG: Ég geri það.)og hún lýtur að markaðsvæðingu, að allt svæðið verði markaðssvæði, og einnig að hreinni orku. (Gripið fram í.)Þetta var inntak mitt í þessari ræðu að töluverðum hluta, hv. þingmaður, að Evrópusambandið glímir við þann vanda að vera eitt þeirra stórvelda sem hefur ekki aðgang að hreinni orku í ríkum mæli. Það er þó eitt jákvætt við Evrópusambandið og það er baráttan við loftslagsbreytingar. Þeir hafa svo sem gert ágætlega hluti í þeim efnum. En kjarni málsins er sá að þeir þurfa hreina orku, það er í grundvallaratriðum stefna Evrópusambandsins, að færa sig yfir í hreina orkugjafa.

Einhvers staðar frá verður sú hreina orka koma og þess vegna lýsti ég áhyggjum mínum af því að þeir myndu hafa mikinn áhuga á því að fá hreina orku frá Íslandi. Ég er ekki að segja að þeir ætli að neyða okkur í einhverjar aðgerðir hér en við þekkjum markaðsaðstæðurnar. Þegar hrein orka verður orðin þetta verðmæt fara hagsmunaaðilarnir af stað og munu tala fyrir því að við förum að selja hreina orku frá Íslandi og þá er allt til reiðu. Þá er búið að innleiða þennan orkupakka og allt til reiðu í þeim efnum.

Ég held að það sé bara almenn skynsemi (Forseti hringir.) sem segir okkur hvernig þeir hlutir munu þróast.