149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að þetta voru mögur svör, vegna þess að því er haldið fram hér að ACER hafi valdheimildir til að ráðstafa orkulindum landa. Það er nú þannig.

Ég spurði um Orkustofnun. Það kom ekkert svar. Ég spurði um dæmi um hvernig ACER hefur farið með þetta vald sitt. Þar kom ekkert svar heldur.

Þá ætla ég að koma með nýja spurningu. Sæstrengur mun koma, segir hv. þingmaður með allt að trúarlegri spádómsgáfu. Þá spyr ég: Hvað í heimildum ACER getur trompað lög og reglur á Íslandi vegna lagningar sæstrengs til Íslands eða frá Íslandi? Hvað í heimildum ACER, sem eru til á prenti, getur trompað lög og reglur á Íslandi að þessu leyti?