149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. „Styðja gagnrýnislaust“ voru upphafsorð hv. þingmanns. Það er fátt sem veitir mér meiri ánægju en að segja hversu rangt Sjálfstæðismenn hafa fyrir sér. Það má alveg treysta því að ég leita líka að því í þessu máli, eins og ég leita að rangfærslum í máli Miðflokksmanna og svo sem allra annarra flokka, eins og gengur og gerist.

Málið fer tvímælalaust ekki gagnrýnislaust frá Pírötum í gegnum þingið. Við gagnrýnum það sem er gagnrýnisvert, hvar sem við finnum það. Það er ýmislegt gagnrýnisvert í málflutningi hv. þingmanns. Hérna er góður listi sem ég krotaði niður. Hv. þingmaður talaði um innleiðinguna 2003 og hækkun á orkuverði 2005. Ég næ ekki alveg tengingunni. Talað er um að þessi orkupakki hafi ekkert gildi og engin áhrif á Íslandi. Það er fullt af atriðum í þessum pakka sem hefur mjög jákvæð áhrif á Íslandi, þar á meðal varðandi neytendaöryggi, alþjónustu, orkuöryggi og landsáætlunina sem þarf að gera. Ein rökin eru að EES sé í hættu. Nei, ég nefndi fleiri rök og miklu betri fyrir því að taka upp þennan pakka.

Sagt er: Evrópusambandið kveður upp dóma, ekki Ísland. — Nei, það er ekki heldur rétt. Að lokum væri það væntanlega EFTA-dómstóllinn sem myndi kveða upp einhverja dóma.

Annað sem kom fram var varðandi vonda EFTA í Icesave-málinu, en svo var það væntanlega góði EFTA-dómstóllinn í Icesave þegar allt kom til alls. Það er dálítið skrýtið.

Mótsagnakenndar yfirlýsingar? — Ísland setur reglurnar. Það er ekkert flóknara en það.

ESB þarf lífsnauðsynlega að komast yfir græna orku. — Já, það er rétt. Orkan sem við erum með hér myndi duga fyrir um eina og hálfa milljón manns, það er 800 milljarða fjárfesting, sem er bara galið.

Afleiðingarnar verða að verð til heimilanna hækkar. — Hvernig fær hv. þingmaður það út? Ég skil ekki hvernig hann fær það út. Ef eitthvað er þá getur verð til stóriðjufyrirtækjanna hækkað. Það er frekar það sem ég fæ út því að það eru þau sem fá orku á kostakjörum og þurfa að hafa uppi á borðinu hvað þau borga. Önnur fyrirtæki gætu komið og sagt: Hey, við viljum líka fá svona góðan díl o.s.frv.

Meira seinna.