149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa hröðu yfirferð. Hann hefur greinilega reynt að setja það saman í stutt yfirlit sem ég sagði. En það var svolítið hroðvirknislegt hjá honum í þeim efnum.

Hv. þingmaður skildi ekki alveg þegar ég ræddi um hækkun á raforkuverði til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja þegar orkupakki eitt var innleiddur. Lögin tóku gildi um mitt ár 2004 og þessar hækkanir komu um áramót. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ég vil hrekja fullyrðingar nokkurra þingmanna hér um að raforkuverð til heimila hafi ekki hækkað við innleiðingu orkupakka eitt. Það eru bara hrein ósannindi sem nokkrir þingmenn hér höfðu uppi í minn garð.

Kjarni málsins er að rafmagnsverð til húshitunar hækkaði. Hitaveita Suðurnesja var á þessum tíma með sérstakan samning við heimili á köldum svæðum þess efnis að þau myndu greiða það sama og ef þau hefðu hitaveitu. Þegar lögin tóku gildi, þ.e. þegar innleiðing orkupakka eitt tók gildi, var þessu fyrirtæki bannað að niðurgreiða rafmagnið. Þannig liggur í þessu máli. Og sporin hræða í þessum efnum. Það er rétt að halda því máli til haga vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Síðan fór hv. þingmaður um víðan völl. Ég fagna því sérstaklega að Píratar ætli að halda uppi gagnrýnum málflutningi í þessu máli. Ég hef nú ekki alveg orðið var við það, ég sé frekar að sumir þingmenn Pírata hafa beint spjótum sínum sérstaklega að þingmönnum Miðflokksins.