149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að leggja mitt af mörkum til þess að bæði þeir sem heima sitja og þeir sem hér eru staddir geti notið þessarar umræðu og mun þess vegna ekki lengja hana úr hófi fram með þessu andsvari. Ég heyrði það á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar að hann hugðist fara í umræðu um fyrirvarann í síðari ræðu sinni. Ég gerði ráð fyrir því, miðað við hvar hann endaði í ræðu sinni, að hann myndi frekar nota tækifærið í síðari ræðu sinni til að greina þau atriði í orkupakka þrjú sem hann telur að séu varasöm eða hættuleg vegna þess að ekki gerði hann það í fyrri ræðu sinni. Kannski getur hann notað þennan tíma í andsvörum til að greina okkur frá því hvaða atriði það eru í orkupakka þrjú sem hann raunverulega hefur áhyggjur af, ef hann gæti nefnt dæmi.