149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, ég get nefnt nokkur dæmi. Ég held það sé alveg ótvírætt og það hefur komið fram í sérfræðiálitum að ríkisstjórnin velur ekki bestu lausnina í þessu máli. Það er eitt mikilvægt atriði. Það eru gallar á þeirri lausn sem ríkisstjórnin velur. Það er alveg ljóst. Það kemur líka fram í sérfræðiáliti. (BÁ: Hvaða atriði eru það?)

Í mínum huga átti að virkja 102. gr. í EES-samningnum, fara þá leið að fara með þetta fyrir sameiginlegu EES-nefndina og fá þar niðurstöðu sem yrði vonandi jákvæð fyrir okkur og þá varanleg lausn. Það er ekki gert. Ég tel það vera galla á þessari tillögu og þessari meðferð og á málflutningi ríkisstjórnarinnar að gera það ekki.

Ég tel að afleiðingar þess að innleiða þennan orkupakka án varanlegrar undanþágu verði þær, þegar fram líða stundir, að orka í landinu verði dýrari til heimila og fyrirtækja og þannig rýrir það lífsgæði okkar. Það er eitthvað sem ég vil ekki vera þátttakandi í. Ég held að það sé mikill ábyrgðarhluti af stjórnarflokkunum að vilja ekki fara bestu leiðina. Ég hef ekki fengið sannfærandi rökstuðning frá ríkisstjórnarflokkunum hvers vegna besta lausnin var ekki valin. Maður veltir því fyrir sér og ég nefndi það fyrr í kvöld í andsvari: Er þetta pólitískur ótti stjórnarflokkanna sem ræður ferð? Hvers vegna er ekki bara farin þessi lögformlega leið sem er réttur okkar og þá geta allir vel við unað?