149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður notaði andsvarið til að ræða fyrirvarana sem hann ætlaði að ræða í síðari ræðu sinni. Ég gef honum hins vegar aftur kost á því að koma hér upp og greina hvaða atriði það eru í orkupakka þrjú sem hann telur að við þurfum að hafa áhyggjur af. Ekki gerði hann það í ræðu sinni, hann nefndi ekki dæmi um þau atriði í orkupakka þrjú sem við þyrftum að hafa áhyggjur af sem myndu leiða til þeirra skelfilegu hluta sem hann er að boða hér. Hann nefnir ekki hvaða atriði það eru sem við þurfum að hafa áhyggjur af. En ef hann nær því ekki á einni mínútu, sem ég myndi svo sem skilja, fyrst hann notaði þessar tvær mínútur ekki í það heldur eitthvað allt annað, þá getur hann væntanlega komið inn á það í síðari ræðu sinni. En það var akkúrat spurning mín. Spurningin var þessi: Hvaða atriði eru það í orkupakka þrjú sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, sem eru í orkupakka þrjú, ekki í orkupakka eitt eða tvö eða einhvers staðar allt annars staðar, heldur nákvæmlega í því máli sem við erum að fjalla um hér í dag?