149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, kannski. Ég skal alveg segja það að ég held að það megi sleppa þessum fyrirvörum og ég hef heyrt fleiri þingmenn segja það. Ég held að þessir fyrirvarar séu fínir. Þeir kosta okkur ekki neitt, þeir eru til þess gerðir að róa marga sem annars væru ekki rólegir, það er bara hið besta mál.

Mér finnst samt eins og hérna sé aftur verið að færa markstangirnar. Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem við höfum verið með takmarkað valdframsal og ég segi takmarkað vegna þess að í lok dags þá er það alltaf stofnun sem tilheyrir okkur, Eftirlitsstofnun EFTA, sem fer með úrskurðarvaldið. Við erum að færa í rauninni valdið úr einum vasa yfir í annan. Við gerðum þetta varðandi Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, Evrópsku vátryggingaeftirlitsstofnunina, Evrópsku tryggingaeftirlitsstofnunina og Evrópsku persónuverndarstofnunina. Þetta er líkan sem við höfum nýtt okkur mjög lengi og hefur virkað mjög vel. Þetta er líkan sem fullnægir þeirri þörf okkar að standa vörð um okkar sjálfstæði og rétt til að stjórna eigin hagsmunum á sama tíma og við færumst nær Evrópu varðandi löggjöf og höfum þá ríkan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Þetta er rosalega gott fyrirkomulag að mínu mati.

Í fyrsta lagi er nánast ekkert valdframsal vegna einmitt þessara fyrirvara. Í öðru lagi erum við ekki undir neinum kringumstæðum að tala um valdframsal yfir orkuauðlindunum. Það sem við erum að tala um er eitt mjög afmarkað tilfelli sem er að ef það er sæstrengur milli okkar lands og annars lands þá megi stofnun, Eftirlitsstofnun EFTA, úrskurða um ágreiningsmál (Forseti hringir.) sem koma upp á milli landanna og varða þann sæstreng og ekkert annað. Ég skil hreinlega ekki hvernig það er hægt að halda því fram aftur og aftur að þetta snúist um orkuauðlindir okkar.