149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt hjá hv. þm. Smára McCarthy og eftir því sem ég hugsa meira um það þá held ég að hann sé ekki sá eini sem hefur staðið hér í pontu og sagt að það mætti sleppa öllum fyrirvörum og innleiða þetta beint í íslenskan rétt. Það gengur hins vegar í berhögg við það sem ákveðnir fræðimenn hafa sagt og, eins og ég segi, ég er nú varaþingmaður og er ekki hokinn af reynslu hér inni á Alþingi og ætla ekki að ég viti betur en þeir.

Varðandi það að eitthvað hafi verið gert áður á einhvern ákveðinn hátt þá get ég ekki tjáð mig um það þar sem ég var ekki hluti af því. Meðan ég sit hér og gegni þeim skyldum sem ég hef þá mun ég berjast fyrir því að vinnubrögðin séu eins góð og ég tel að þau geti orðið. Ef þetta yrði innleitt svona yrði það brot á stjórnarskrá samkvæmt áliti okkar færustu manna. Þessir tilteknu menn, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, eru akkúrat þeir menn sem ríkisstjórnin kaus að styðjast við við gerð þingsályktunartillögunnar.

Innleiðingin á fyrirvörunum þarf að standast skoðun, þ.e. fyrirvararnir á innleiðingunni þurfa að vera lagalegir. Við þurfum að sjá hverjir þeir eru. Ég vil sjá það hverjir fyrirvararnir eru og ég vil taka afstöðu til þeirra. (SMc: Búið að …) Eins og ég kom áður inn á í ræðu minni er búið að vísa á þrjá mismunandi staði um það hverjir þessir lagalegu fyrirvarar séu. Það róar mig ekkert. Ég vil sjá lagatextann sem sýnir okkur hvernig þetta verður innleitt.