149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór mikinn yfir því að þeir sem styddu málið teldu andstæðingana færa fram mikla rökleysu og annað slíkt. Það er kannski skiljanlegt af því að í minnihlutaálitinu eru mjög margar staðreyndir alls ekki sannar. Það er búið að hrekja þær aftur og aftur og þær eiga sér enga stoð í þriðja orkupakkanum en eru kannski ágætisinnlegg í umræðu um orkustefnu Íslands o.fl.

Hv. þingmaður spurði hvort í þriðja orkupakkanum væri verið að tryggja almenningi trygga orku. Já, í þriðja orkupakkanum eru skýr ákvæði um að tryggja beri neytendum aðgang að tryggri orku á samkeppnishæfu verði, að verja skuli viðkvæma neytendur og skilgreina þann hóp sérstaklega. Hann vísar líka í að samkeppnislög fari að gilda út af þriðja orkupakkanum. Það er einfaldlega rangt. Þau gilda nú þegar um orkuna og það gerist ekki með þriðja orkupakkanum. Síðan vísar hann í könnun Maskínu um að stór hluti þjóðarinnar sé andvígur þriðja orkupakkanum. Nei, þar var ekki spurt um þriðja orkupakkann heldur hvort aðilar vildu að aukið vald yrði fært til stofnana Evrópuríkjanna og það er ekki gert með þriðja orkupakkanum. Þetta eru atriði sem mig langaði að byrja á að nefna hér þó að ég gæti farið inn á mörg önnur.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í valdframsalið af því að mér fannst það ekki koma alveg nógu skýrt fram hér áðan: Telur hann ekki að það valdframsal komi einungis til ef við tengjum okkur og þá að ESA geti gripið inn í ef ágreiningur verður milli aðildarríkja og menn verði ósammála um niðurstöður varðandi tengingar milli ríkja? Er það ekki eina valdframsalið sem felst í þriðja orkupakkanum af því hér verður mönnum tíðrætt um það og stjórnarskrárumræðan er um það sérstaklega?

Nú höfum við gengið lengra í ýmsum innleiðingum eins og með fjármálakerfið og annað sem talið er ganga mun lengra. Meira að segja gera fyrirvararnir sem við erum með í dag, af því að við erum ekki tengd, það að verkum að það verður ekkert valdframsal vegna þriðja orkupakkans.