149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:44]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, varðandi valdframsalið þá kemur það mjög glögglega fram í áliti téðra og títtnefndra fræðimanna að með innleiðingunni sé verið að ganga lengra en óhætt sé að fullyrða að gangi ekki í berhögg við stjórnarskrá. Þess vegna, akkúrat þess vegna, hef ég áhyggjur af málinu. Vegna þess að það er það sem þeir segja.

Hér hefur verið sagt aftur og aftur, af þeim sem eru fylgjandi málinu, að til þess séu fyrirvararnir settir, af því að við ætlum sjálf að stjórna því hvort af grunnvirki yfir landamæri verði sett ellegar ekki. Í þriðja orkupakkanum felst því valdframsal að áliti stjórnarliða, eða hvað? Þannig að hv. þingmaður segir já en segir samt sem áður að hún væri tilbúin að innleiða hann án fyrirvara sem er brot á stjórnarskránni samkvæmt áliti fræðimanna. Um þetta snýst málið, þetta er ástæðan fyrir því að ég tek þessa afstöðu.

Ég vil fyrir mitt leyti að þessir lagalegu fyrirvarar séu skýrir. Í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar var talað um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, en sú breyting er afskaplega rýr og varla til þess fallin að halda stjórnarskrána — „fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku“ sem er þá bara hverju sinni. Við gætum verið komin með aðra ríkisstjórn eftir viku þess vegna, ég er ekki að óska þess, ég bið að sjálfsögðu fyrir ríkisstjórninni. Það er hins vegar veruleiki sem við horfum á og sú ríkisstjórn gæti tekið allt aðra stefnu. Það gætu verið hægri popúlistar.