149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:48]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég talað ekki um allt valdframsal, ég sagði það ekki. Ég talaði um þetta mál og ég ætla að halda mig við það. Það er alveg ljóst að þegar við erum að vitna í þessa tvo téðu einstaklinga, sem eru lögfróðir menn, þá eru það þeir sömu menn og ríkisstjórnin eða hæstv. utanríkisráðherra vísar í til að rökstyðja að leggja þingsályktunartillöguna fram eins og hún er gerð úr garði. (Gripið fram í.) Af hverju ætti það að vera eitthvað annarlegt að við tölum um þá menn og þeirra álit?

Varðandi það að það sé enginn lögfræðilegur vafi, verði þessi gerð innleidd svona, þá er það með þeim fyrirvara að hún verði ekki innleidd fyrr en þessir lögfræðilegu fyrirvarar liggja fyrir. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá er þingsályktunartillagan aflétting á þessum stjórnskipulega fyrirvara. Ég held að hv. þingmaður hafi sagt það. Ef ég misfer með það biðst ég afsökunar á því. Hún er aflétting á stjórnskipulega fyrirvaranum, sem þýðir að hún er innleiðing. (Gripið fram í.) — Akkúrat. Hún er innleiðingin. Við erum að veita heimildina til þess að innleiða eitthvað áður en við fáum þessa fyrirvara.

Við erum ekki með þá í höndunum. Þingsályktunartillagan er ekki lög, er ekki lagalegur fyrirvari. Þú ferð ekki með þingsályktunartillöguna þegar ágreiningur verður um Evrópska efnahagssvæðið eða samninginn sem við erum hluti af og veifar henni og segir: Hérna er þetta. Það er alveg kristaltært. Ég held að við ættum að halda okkur við það að reyna að gera þetta eins vel og mögulegt er. Og til þess að koma þessu í gegn í góðri sátt verða vinnubrögðin að vera þess eðlis að þau séu trúverðug. Því miður finnst mér, og tala fyrir mig sjálfan, þau ekki vera það í þessu máli.