149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Þegar ég neyddist til að ljúka máli mínu í fyrstu ræðu vegna tímaskorts hafði ég ekki lokið við að fara yfir álit minni hluta utanríkismálanefndar og hyggst halda áfram þeirri yfirferð og byrja á kaflanum sem fjallar um undanþágur.

Mörg dæmi eru um að ríki fái undanþágur frá ákvæðum EES-samningsins. Ísland hefur til að mynda undanþágur varðandi skipaskurði og járnbrautir, enda eiga þau ákvæði ekki við hér á landi. Er varðar orkumál hefur verið veitt undanþága varðandi jarðgas enda ekki fyrir hendi neinn útflutningur þess frá Íslandi. Því skyldi ekki veitt undanþága varðandi raforku á sömu forsendum þegar fyrir hendi er valkostur sem byggður er á.

Í ljósi þeirra ótvíræðu hagsmuna sem fyrir hendi eru og þeirrar réttaróvissu sem fylgja myndi upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn og innleiðingu í íslenskan rétt með þeim hætti sem getið er í þingsályktuninni, verður að telja enn mikilvægara en áður að Ísland fylgi tillögu þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Hirsts og leitist við að ná fram frekari undanþágum fyrir sameiginlegu EES-nefndinni.

Þá að kaflanum sem ber yfirskriftina Fyrirvarar. Þar er vísað til þeirra fyrirvara sem ríkisstjórnin hefur teflt fram í þessu máli, kallar þá fyrirvara.

Í álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna er varað við þeirri réttaróvissu sem vafinn um stjórnskipulegt gildi innleiðingar þriðja orkupakkans hefur í för með sér. Ríkisstjórnin stefnir á að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt með þeim einhliða fyrirvara að reglugerðirnar komi ekki til framkvæmda hér á landi á meðan landið er ótengt raforkumarkaði ESB.

Eins og fram kom í máli Davíðs Þórs Björgvinssonar fyrir nefndinni eru fyrirvarar sem þessir aðeins ætlaðir til heimabrúks en hafa ekki þjóðréttarlegt gildi. Þeir hafa því ekki vægi ef til málshöfðunar kæmi á grundvelli réttinda sem reglugerðirnar veita. Í álitsgerð Stefán Más og Friðriks Árna kom skýrt fram að aflétti Ísland stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er Ísland þar með bundið að þjóðarétti til að innleiða þriðja orkupakkann að fullu í íslenskan rétt með þeim aðlögunum sem kveðið er á um í ákvörðuninni.

Ég ætla að endurtaka þetta, virðulegur forseti:

Fram kom að aflétti Ísland stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er Ísland þar með bundið að þjóðarétti til að innleiða þriðja orkupakkann að fullu í íslenskan rétt með þeim aðlögunum sem kveðið er á um í ákvörðuninni.

Semja verður um allar undanþágur og aðlaganir á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Einhliða fyrirvarar hafa ekki gildi að þjóðarétti. Einhliða fyrirvarar hafa ekki gildi að þjóðarétti og engin fordæmi eru fyrir því að aðildarríki EES-samningsins hafi sett slíka einhliða fyrirvara.

Ég held að sé tilefni til að endurtaka þessa setningu, virðulegur forseti:

Einhliða fyrirvarar hafa ekki gildi að þjóðarétti og engin fordæmi eru fyrir því að aðildarríki EES-samningsins hafi sett slíka einhliða fyrirvara.

Framkvæmd EES-samningsins byggir á samræmdri innleiðingu innan alls EES-svæðisins. Hlutverk ESA er að hafa eftirlit með því að EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, virði skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Í því felst að ESA fylgist grannt með innleiðingu ESB-gerða í landsrétt. Telji ESA að ekki hafi verið staðið rétt að innleiðingunni getur ESA stefnt aðildarríkjum fyrir EFTA-dómstólinn á grundvelli rangrar innleiðingar. Ekki þarf að líta lengra en til dóms EFTA-dómstólsins í sameinuðu málunum númer E-2-3/17, þar sem ESA stefndi Íslandi vegna rangrar innleiðingar í tengslum við innflutning á hráu kjöti.

Og ef tími gefst til, virðulegur forseti, þá mun ég fjalla aðeins nánar um það hér þegar ég hef lokið við að fara yfir minnihlutaálit utanríkismálanefndar.

Erfitt er að henda reiður á hvað sú ranga innleiðing sem hér um ræðir muni kosta íslenska skattgreiðendur, en ljóst er að um verulegar fjárhæðir er að ræða. Verði Íslandi gert skylt að fella niður áðurnefndan fyrirvara á grundvelli rangrar innleiðingar koma ákvæði þriðja pakkans til framkvæmda. Í álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna vara þeir einmitt við því að aflétti Ísland stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, hafi Ísland um leið þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerðina í landsrétt. Annað væri brot gegn skuldbindingum Íslands sem orðið gæti til þess að ESA höfðaði samningsbrotamál á hendur Íslandi. Í því samhengi mega einhliða fyrirvarar sér lítils.

Minni hlutinn vekur jafnframt athygli á að í þingsályktunartillögunni er enginn fyrirvari. Einungis er minnst á í greinargerð að verði tillagan samþykkt verði reglugerð EB nr. 713/2009 innleidd með lagalegum fyrirvara sem nánar er tilgreindur þar. Þingsályktunartillagan sjálf minnist aftur á móti ekki einu orði á þennan fyrirvara heldur snýr hún einungis að því að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og fella inn í samninginn gerðir þriðja orkupakkans. Ísland er jafn bundið og áður til að innleiða ákvæði þriðja orkupakkans. Því er ekki úr vegi að spyrja af hverju lagalegi fyrirvarinn var ekki hafður í þingsályktunartillögunni sjálfri, hvorki er að finna þennan lagalega fyrirvara í þeim innleiðingarfrumvörpum né í þingsályktunartillögu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram í tengslum við þriðja orkupakkann. Það er því ekki einungis svo að lagalegi fyrirvarinn hafi ekki raunverulegt gildi, heldur er allsendis óvíst hvernig hann er orðaður.

Sá fyrirvari sem tiltekinn er í þingsályktunartillögu í 791. máli, um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, snýr að því að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema að undangengnu samþykki Alþingis. Sú þingsályktun er ekki í samræmi við texta greinargerðar þingsályktunarinnar sem hér um ræðir og vísar til þess að reglugerðin verði innleidd með lagalegum fyrirvara um að sæstrengur verði ekki lagður eða áætlaður nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og að tekið verði sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.

Ótækt er að Alþingi samþykki þingsályktunina án þess að þessi lagalegi fyrirvari liggi fyrir.

Undir þetta ritar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þessi mál hafa, ég segi ekki skýrst, en kannski fengið aukinn rökstuðning. Þá vísa ég til síðasta kafla þessa minnihlutaálits í umræðum á Alþingi í dag. Það var mjög sláandi að heyra talsmenn þessa máls viðurkenna að fyrirvararnir sem beðið hefur verið eftir séu eingöngu einhver orðræða, lýsing í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu og svo frumvörp hæstv. iðnaðar- og nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, einkum varðandi raforkulög. En eins og komið er inn á í minnihlutaálitinu er lítið sem ekkert hald í því.

Það kom líka fram á fundum utanríkismálanefndar að forsendur þess að sú aðferð sem ríkisstjórnin leggur hér upp með stæðist stjórnarskrá væri að lagalegu fyrirvararnir væru þess eðlis að lögin, innleiðingin, öðlaðist ekki gildi. Bent var á í umræðum í nefndinni að lagalegu fyrirvararnir hefðu ekki verið birtir og sérfræðingarnir sem kallaðir voru fyrir nefndina kváðust ekki hafa séð þá. Ekki hef ég séð þá, virðulegur forseti. En nú er það upplýst í umræðunni í dag, að því er virðist, að þeir séu ekki til. Með hugtakinu lagalegir fyrirvarar sé átt við klausu í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu. Átt sé við breytingu á raforkulögum þar sem áréttuð er grein sem þegar er til staðar í þeim lögum um að Alþingi skuli fjalla um svokallaða kerfisáætlun, þ.e. móta stefnu í raforkumálum m.a. varðandi sæstreng. Og svo er gengið svo langt að kalla lagalegan fyrirvara þær yfirlýsingar sem orkumálastjóri Evrópusambandsins gaf eftir fund með hæstv. utanríkisráðherra þess efnis að Ísland væri eyja og þar af leiðandi ættu ekki við slík ákvæði þegar lönd væru ekki tengd saman.

Ég vek sérstaklega athygli á því í því samhengi, virðulegur forseti, hvernig sú yfirlýsing orkumálastjórans er orðuð. Ég vek líka athygli á því hvernig sams konar yfirlýsing EES-nefndarinnar er orðuð. Þetta eru mjög áþekkar yfirlýsingar. Þar eru eingöngu dregnar fram augljósar staðreyndir, sem sagt sú staðreynd að Ísland sé eyja og ekki sé búið að tengja landið við raforkukerfi Evrópusambandsins og þar af leiðandi eigi ekki við ákvæði sem gildi fyrst þegar búið sé að tengja landið við raforkukerfi Evrópusambandsins. Þetta getur auðvitað hver maður sagt sér sjálfur, en sérkennilegt er, svo ekki sé meira sagt, að ríkisstjórnin skuli leggja slíkar yfirlýsingar fram, raunar ekki einu sinni leggja þær fram heldur einfaldlega að vísa í einhverjar fréttatilkynningar frá utanríkisráðuneytinu og styðjast við þær sem lagalega fyrirvara sem eigi að koma í veg fyrir að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér innleiðingu þriðja orkupakkans.

Þó er í því máli sem við ræðum hér sérstaklega tekið fram að nálgun ríkisstjórnarinnar feli það í sér að orkupakkinn verði innleiddur að fullu, en bent á að það verði gert með lagalegum fyrirvörum, sem ég og reyndar örugglega fleiri trúðum um nokkurt skeið að yrðu lagðir fram og kynnu þar af leiðandi að hafa eitthvert gildi, en hefur nú verið upplýst að séu ekki til, þessir svokölluðu lagalegu fyrirvarar séu einfaldlega tilvísun í fréttatilkynningar frá utanríkisráðuneytinu og vangaveltur í greinargerð með þessari ályktunartillögu þess efnis að Alþingi muni vilja fjalla um lagningu sæstrengs þegar þar að kemur.

Virðulegur forseti. Þetta eitt og sér hlýtur að nægja til þess að valda okkur verulegum áhyggjum og vera til þess fallið, eins og kallað var eftir fyrr í dag, að við gerum hlé á þessari umræðu til að fá upplýst um hvort ríkisstjórnin sé staðráðin í því (Forseti hringir.) að leggja ekki fram þá lagalegu fyrirvara sem boðaðar hafa verið.