149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að fara yfir með þingmanninum hvernig svona innleiðing virkar. Hann hefur verið þingmaður lengur en ég, en það er nú þannig að tillaga til þingsályktunar um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara er leyfi frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar. Þá getur ríkisstjórnin með innleiðingarreglugerð aflétt þessum stjórnskipulega fyrirvara. Það er ekki bara gert með innleiðingarreglugerðinni heldur líka lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum sem liggja fyrir atvinnuveganefnd. Það er því ankannalegt þegar alltaf er gefið í skyn að það sé gert eftir á, það sé verið að fela það. Það er í raun verið að snúa út úr því hvernig verklag þingsins er, hvernig þetta virkar hjá okkur.

Menn hljóta að vera komnir með umræðuna út í skurð þegar eina haldreipið er að hvergi sé að finna þennan lagalega fyrirvara. Það er alveg ljóst að þessi lagalegi fyrirvari er á bls. 3 í þingsályktunartillögunni, algerlega skýr. Hann verður tekinn orðrétt upp í reglugerðina, sem er innleiðingarreglugerðin, þar sem stjórnskipulega fyrirvaranum verður aflétt. Ég ætla því að frábiðja mér það að haldið verði áfram hér í alla nótt að halda þessu fram. Þá mun ég koma hingað aftur og aftur með glöðu geði til að útskýra þetta af því að fólk á rétt á að vita hvernig þetta virkar. Annað er útúrsnúningur.

Af því að ég er í andsvari við hv. þingmann þá nýti ég kannski tækifærið enn og aftur og spyr hann að því hvar í þriðja orkupakkanum sé að finna þá heimild að hægt sé að brjóta upp fyrirtæki eins og Landsvirkjun eða önnur stærri fyrirtæki. Eins og margt annað í minnihlutaálitinu er því haldið fram án þess að segja hvar það er og hv. þingmaður hefur ekki getað svarað því hingað til.