149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er í þriðja skipti sem ég spyr hv. þingmann að þessari spurningu þannig að ég bið hann vinsamlegast um að svara henni í seinna andsvarinu svo ekki þurfi að koma til fimmta skiptið þegar ég spyr þessarar spurningar. Ég er í alvörunni mjög forvitin um hvar þetta er að finna. Ef maður les þriðja orkupakkann, meira að segja þá grein sem kannski væri hægt að snúa út úr sérstaklega til að finna þetta út, sem er b-liður 4. töluliðar 37. gr., þá er alls ekki hægt að lesa út úr því að hægt sé að brjóta upp fyrirtæki. Ég tel þetta eitt af þeim atriðum í minnihlutaáliti utanríkismálanefndar sem á sér enga stoð í þriðja orkupakkanum og er bara til þess fallið að halda einhverju að almenningi sem er kolrangt og oft búið að svara.

Varðandi lagalega fyrirvarann þá er ég einmitt sammála hv. þingmanni um það hvernig heimasíða Evrópusambandsins virkar. Það er mjög gott hversu opin og gagnsæ hún er. Þar er t.d. hægt að kynna sér mál löngu áður en þau eru komin á dagskrá. Ríkisstjórnir fyrri tíma voru auðvitað með aðgang að öllu ferli þriðja orkupakkans og hvað var þar í uppsiglingu. Það er ekki annað hægt að segja en að það sé mjög gagnlegt fyrir þingmenn að kynna sér það og vera á varðbergi og undirbúa sig vel þegar mál eru á fyrri stigum í Evrópusambandinu. Það er okkar mikilvæga hagsmunagæsla og hagsmunagæsla sem við höfum einmitt aukið við og ekki síst skilgreint betur í utanríkismálanefnd með nýjum reglum sem voru samþykktar í september. Þar er þetta 2. gr. ferli skilgreint enn þá betur. Mig langaði að árétta það.

Ég vona að hv. þingmaður svari seinni spurning minni, ég ætla ekki að bera upp aðra svo að svarið við henni komist nú örugglega að.