149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Það kom skýrt fram í máli Skúla Magnússonar héraðsdómara og það kemur líka skýrt fram í máli Stefáns Más Stefánssonar, prófessors og lögspekings, og ég held bara allra þeirra lögspekinga sem hafa komið fyrir nefndir eða tjáð sig annars staðar að það hvílir engin lagaskylda á Íslandi að leggja eða leyfa lagningu sæstrengs til Íslands.

Það er mér mikil ánægja að fræða hv. þingmann um þetta fyrst að óróleikinn liggur þarna. Það er ekki frekar krafa á Ísland að leggja sæstreng en það sé lagaboð eða krafa á Ísland að hingað komi einhver utan úr heimi og leggi veg yfir Kjöl eða brú yfir Reykjavíkurtjörn. Það er engin slík krafa, það getur hvergi stofnast slík krafa eða slík skylda á Ísland að leyfa slíkt.

Þetta kom alveg skýrt fram og þetta kom líka skýrt fram hjá þeim lögspekingum sem ég hlustaði á á sameiginlegum fundi atvinnuveganefndar og utanríkismálanefndar. Það er mér mikil ánægja að geta a.m.k. róað hv. þingmann með þetta. Það er engin óvissa hvað þetta varðar. Það er engin slík óvissa. Við getum alla vega verið róleg gagnvart þessu álitaefni í kvöld. Allir þeir sem vit hafa á málinu og hafa tjáð sig um það eru alveg skýrir með þetta. Þarna er engin slík skylda á Íslandi, íslenskum stjórnvöldum eða íslenskum almenningi.