149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og hvetja hann til að lesa þessa bók. Hún er nefnilega ansi mögnuð um harðstjórn. Hún er auðlesin og ég mæli með því að fólk lesi hana ekki bara einu sinni og ekki bara hratt heldur oft og hafi hana á náttborðinu hjá sér hvenær sem er. Ég hef haft mikið gagn og gaman af því.

Ég var spurð af því af hv. þingmanni hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að innleiðing þessa þriðja orkupakka bryti í bága við stjórnarskrá. Ég hef engar áhyggjur af því. Ég er sannfærð um að svo er ekki. Ég er sannfærð um það vegna minnar lögfræðikunnáttu, þar sem ég hef kennt stjórnskipunarrétt og lærði stjórnskipunarrétt við lagadeild háskóla, og líka vegna þess, þar sem ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing, að ég hef hlustað á fjölmargra lögspekinga og allir þeir lögspekingar sem hafa tjáð sig um málið segja að við séum ekki að framselja eitthvert vald svo fari í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Hins vegar verð ég að segja vegna þess sem hefur verið marglesið upp úr áliti Stefáns Más Stefánssonar lögspekings og umræðunnar um það að þetta, þ.e. framsal valds, hefur margsinnis verið til umræðu meðal lögfræðinga, í þessum tímum og í þessum hópi. Hvenær erum við að framselja vald og hvenær ekki? Eins og ég kom inn á í ræðu minni þá kann að vera að við hefðum átt að setja skýrt ákvæði í stjórnarskrá varðandi EES-samninginn. (Forseti hringir.) Hinn mæti Stefán Már Stefánsson bendir á þetta í sínum fjölmörgu álitum sem hann sendir hingað. Ég ætla að koma betur inn á það í seinna andsvari.