149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega seinna andsvarið. Þetta með álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar — nú er ég svo heppin að fá að sitja í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvar við fáum einmitt inn á okkar borð öll þau mál er varða stjórnskipulega fyrirvara. Okkur er gert að kanna það hvort við eigum að samþykkja það eða ekki. Þess vegna fáum við oft fyrir þá nefnd, þó að ég sé ekki búin að sitja hér lengi, einmitt Stefán Má Stefánsson og fleiri með sín álit á hinum og þessum málum. Þar kemur iðulega fram þessi fyrirvari um mögulegt framsal og mjög oft, eða ég vil bara segja alltaf, þegar hann kemur er rætt um það. Hann hefur skrifað áður í álit hjá sér um mikilvægi þess að þetta sé sett inn í stjórnarskrána. Norðmenn gerðu það t.d. Þeir settu skýrt ákvæði í stjórnarskrána. Við höfum ekki gert það. Við gerðum það ekki á sínum tíma þegar við urðum aðilar að þessum samningi sem ég held að allir séu sammála um að hafi verið mikið framfaraspor fyrir okkur.

Varðandi spurninguna um hvort þetta sé hýpóþetískt þá er þetta það að vissu leyti. Þetta er ávallt innihald álitsgerða Stefáns Más. Hann bendir ávallt á þetta í sínum álitsgerðum til þingsins þegar hann er beðinn um sérstakt álit vegna stjórnskipulegra fyrirvara sem þarf að aflétta.

Aðeins um lagalega fyrirvara sem var spurt um í fyrra andsvari: Hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fór gríðarlega vel í gegnum það áðan. Lagatæknilegi eða lagalegi fyrirvarinn snýr að ferli málsins, því hvernig þingsályktunartillaga er samþykkt, fer inn í ríkisstjórn, gerir reglugerð o.s.frv., innleiðingin.(JÞÞ: … dæmi.)