149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með þingmönnum sem hafa talað í þá veru að það sé farið að líða á seinni hlutann í þessu og skynsamlegt, eins og hv. þm. Logi Einarsson orðaði það, að fara að ljúka fundi. Eins og fram hefur komið þá bíða okkar nefndastörf á morgun. Ég er sjálfur í fjárlaganefnd og það er mikið um að vera í þeirri nefnd. (Gripið fram í.) Það er kannski meira en að mæta á fundinn, nú þarf að setja saman nefndarálit og ígrunda það vel og vandlega og það fer tími í þetta allt saman, hv. þingmaður.

Ég verð að segja að það kom sérstaklega á óvart þegar hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði að það væri lítið mál að vera fram í nóttina vegna þess að konur hafa talað sérstaklega um það hér í þinginu að þetta væri ekki nógu fjölskylduvænn vinnustaður og það er ekki fjölskylduvænt að tala langt fram í nóttina. Það þekkja allir. Ég styð þessar óskir (Forseti hringir.) heils hugar að þessu fari að ljúka í kvöld og svo höldum við áfram á næsta fundi.