149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það togast á í mér tveir ólíkir kraftar, annars vegar finnst mér þessi tiltekna umræða vera svolítið úr sér gengin. Við höfum verið að hlusta á rökleysu sem er löngu búið að hnekkja, endurtekin og endurtekin og endurtekin og mér leiðist það pínu. En á sama tíma eru enn þá ýmsir hv. þingmenn sem hafa ekki fengið að taka til máls í umræðunni (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég er þeirrar skoðanir að það sé ekki gagnlegt fyrir okkur á þinginu að vinna að næturlagi. Fólk missir einbeitinguna, verður þreytt, röksemdafærslunnar verða enn þá verri. Það er margt slæmt sem gerist þegar við vinnum að næturlagi. Ég vil gjarnan að við færum okkur yfir í það að vinna innan skikkanlegra tímamarka og legg því til að við (Forseti hringir.) hættum um miðnætti og fjölgum frekar þingfundadögum fram í sumar ef þörf er á. Það eru mörg (Forseti hringir.) mál sem á eftir að taka fyrir. Tökum þau fyrir og reynum að fá þau út úr nefndum sem allra fyrst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)