149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að bregðast við því sem hv. þingmaður kemur fram með og segir vera glænýjar upplýsingar í málinu um þá lagalegu fyrirvara sem hér eru gerðir. Ég ætla að endurtaka þetta við hv. þingmann þó að ég hafi endurtekið þetta við tvo hv. þingmenn úr flokki hans fyrr í kvöld. Lagalegi fyrirvarinn er áréttaður í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Þingsályktunartillagan snýst um það að Alþingi leyfi ríkisstjórninni að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Síðan gerir ríkisstjórnin innleiðingarreglugerð þar sem afléttingin fer fram og þar eru þessir fyrirvarar, eru teknir beint upp úr greinargerðinni og í innleiðingarreglugerðina. Það gerist ekki seinna, það er ekki verið að fela þá með nokkrum hætti og þeir eru ekki nýir, þeir eru búnir að vera í greinargerðinni frá því að hún var lögð fram.

Þeir fyrirvarar eru líka hjá atvinnuveganefnd þar sem eru frumvörp frá iðnaðarráðherra um sæstrenginn og að ákvörðunarvaldið sé hér sem girðir enn frekar fyrir það að það komi nokkurn tímann sæstrengur hérna. (Forseti hringir.) Það er algerlega fjarstæðukennt að halda því fram að (Forseti hringir.) í dag hafi komið fram einhverjar glænýjar upplýsingar, þær hafa legið fyrir alveg frá því að málið var lagt fram. (Gripið fram í.)