149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að kalla þurfi til sérfræðinga til að upplýsa okkur um það sem fylgjendur þessa lagabálks kalla lagalega fyrirvara. Það hefur komið í ljós að þeir eru ansi fátæklegir. Jafnvel þótt menn vísi í orð framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sameiginlega yfirlýsingu EFTA-landanna er ekkert þar inni. Það er ekkert þar sem hönd er á festandi nema að þeir viðurkenna þá staðreynd að Ísland sé einangrað; Ísland sé eyja og hingað liggi enginn sæstrengur.

Er þetta lagalegi fyrirvarinn, herra forseti? Eitt er víst að með því að fella brott stjórnskipulega fyrirvarann, eins og verið er að gera með þessari þingsályktunartillögu, erum við skuldbundin til að innleiða regluverk þriðja orkupakkans, alveg sama hvað menn segja á fundum EFTA-ríkjanna eða orkumálastjóra Evrópu.