149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Síðan orkupakki þrjú kom til umræðu á þingi hefur áróðurinn fyrir samþykkt hans farið stigvaxandi. Utanríkisráðherra þótti ekki nóg að fara í kynningarferð um landið heldur var fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, Carl Baudenbacher, kallaður til Íslands til að fylgja eftir umsögn sinni sem hann skrifaði 5. maí, þrátt fyrir að formlegur frestur til umsagna hafi verið til 29. apríl.

Hvort Baudenbacher var kallaður til af utanríkisráðherra eða ekki skulum við láta liggja á milli hluta, en boðskapur hans er afar skýr. Hann vill meina að hafni þjóðin orkupakkanum verði okkur refsað af ESB. Hann gengur jafnvel svo langt að segja að með því að hafna orkupakkanum séum við að tefla EES-samningi Íslendinga í tvísýnu því að Norðmenn gætu brugðist illa við því og jafnvel tekið upp á því að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið um orkumál.

Ef við lítum á gögnin, og þá sérstaklega við lestur 102. gr. í EES-samningnum, kemur skýrt fram að hlutverk sameiginlegu EES-nefndarinnar er að finna lausn sem allir geta fellt sig við komi til þess að aðildarríki hafni þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram, samanber þetta, með leyfi forseta:

„Ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við samning þennan, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins …“

Þessa grein hafa sérfræðingar á borð við Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst vísað óspart í, samanber eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sameiginlega EES-nefndin skal áfram leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri.“

Hefur það jafnframt komið fram að Stefán Már og Friðrik telja að sú lögfræðilega leið sem fara eigi sé að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem það sé sú leið sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir að sé farin.

Fyrst ég er farin að vitna í orð þeirra ágætu félaga þá segir á bls. 25 í álitsgerð þeirra um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB, með leyfi forseta:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.“

— Þótt ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. —

„Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann. Verður því að hafna því sjónarmiði að álitaefni tengd valdframsali til ESA skipti ekki máli á þessu stigi þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi …“

Hér er ekki verið að virða grundvallarhagsmuni íslensku þjóðarinnar. Hér er um að ræða endurnýjanlegar orkulindir. Hér er um að ræða vatnsafl og jarðvarma sem er undirstaða lífsafkomu okkar og þar með starfsemi innlendra fyrirtækja. Okkur ber því að nýta orkuauðlindir okkar fyrir þjóðina og nýta hana fyrir þjóðina alla, eins og við gerum með sjávarauðlindir. Við eigum að nota auðlindirnar til þess að atvinnulífið verði fyrir alla um allt land. Það er grundvallaratriði í mínum huga.

Eins og ég sagði fyrr í dag búa ríki Evrópusambandsins við aðrar aðstæður en við þegar kemur að orkumálum. Við erum með orkufyrirtæki okkar í opinberri eigu og búum við stöðuga og örugga framleiðslu. Ef við tengjumst orkumarkaði ESB mun raforkuverð stórhækka, til heimila og þar með til fjölskyldna í landinu, þar sem verð til húshitunar mun hækka.

Og eins og segir í umsögn Hjörleifs Guttormssonar til nefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Augljóst er að auk heimila og smáfyrirtækja sem greiða kostnaðinn af innleiðingu orkupakka 3 og meðfylgjandi tengingu við ESB-kerfið verður íslensk náttúra, ár, vötn og jarðhitasvæði, þolendur af aukinni ásókn í virkjanir með væntanlegan útflutning raforku fyrir augum. Þessa gætir nú þegar í neikvæðum viðhorfum landeigenda og sumra sveitarfélaga til verndunar dýrmætra náttúrusvæða, þar á meðal hugmynda um miðhálendið allt sem þjóðgarð. Furðu sætir að flokkur sem kennir sig við græna stefnu skuli gerast þátttakandi í slíkum leiðangri í stað þess að beita sér fyrir að styrkja almannaeign á orkuauðlindinni og stilla til um hóflega nýtingu hennar. Fyrir dreifbýlið er hér líka sérstaklega mikið í húfi og því óskiljanlegt að þeir sem telja sig talsmenn þeirra sem þar þrauka skuli gerast ábekingar á orkupakka þrjú.“

Annar aðili sem virkilega hefur staðið vaktina er Ögmundur Jónasson sem hefur með skrifum sínum náð að vekja þjóðina til umhugsunar. Hann segir m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta:

„Menn hafa deilt um innihald hvers pakka en varla geta menn deilt um hvert vegferðinni er heitið. Það hefur alltaf legið beint við. Fyrst var um að ræða kröfu um bókhaldslega aðgreiningu á framleiðslu, dreifingu og sölu. Síðan kom krafa um að eignarhaldi yrði einnig skipt upp. Þar fengu Íslendingar undanþágu sem kunnugt er varðandi eignarhald á Landsneti sem hér á landi hefur verið í eign Landsvirkjunar, Rariks, OR og Orkubús Vestfjarða.

En þrátt fyrir undanþágu er ríkisstjórnin að undirbúa aðgreiningu á eignarhaldinu á milli framleiðenda og flutningsaðila, að orkuframleiðendur eigi þar ekki hluti eins og nú er. Boðað hefur verið að skattgreiðendur leysi þá út. Hvers vegna? Nærtækt svar er að þá nálgumst við betur forskrift Evrópusambandsins um raforkumarkað en auk þess yrði nú auðveldara að búta Landsvirkjun niður eins og samkeppnisaðilar hafa þegar viðrað og selja að því búnu bútana.“

Vert er að taka fram að samtökin Nej til EU í Noregi hafa safnað milljón norskum krónum í þeim tilgangi að saksækja norska ríkið með forsætisráðherra landsins, Ernu Solberg, í forsvari. Eins og ég skil þetta vill lögfræðingur samtakanna meina að ekki hafi verið farið eftir stjórnarskrá Norðmanna við innleiðingu orkupakkans og því sé innleiðingin ólögmæt. Það er því ómögulegt að segja hvort Norðmenn séu í raun búnir að innleiða orkupakka þrjú, hvort þeir séu búnir að innleiða þann pakka hjá sér eða ekki, því að enn á eftir að dæma í þessu mikla hitamáli þar ytra.

Á þessum rökum má leiða að óbeinar hótanir Evrópusambandsins, bornar fram af Carl Baudenbacher, séu ekki eitthvað sem ætti að standa í Íslendingum. Við höfum áður staðið frammi fyrir hótunum og við höfum haft betur. Nærtækasta dæmið í mínum huga er Icesave þar sem hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hvatti okkur til að samþykkja samninginn. Við Íslendingar erum stolt þjóð og við erum þjóð sem lætur ekki segja sér fyrir verkum, þjóð sem kannar málin sjálf og þjóð sem tekur sínar ákvarðanir sjálf, án þess að alþjóðastofnanir hafi nokkur áhrif.

Að mínu mati er þetta mál ekkert ólíkt fyrri málum og því er engin ástæða til að horfa á það með öðrum gleraugum. Sama hvaða hótanir dynja á okkur, sama hvaða hræðsluáróður er látinn dynja á okkur þá breytir það því ekki að rökin fyrir orkupakkanum eru engin. Það er réttast að hafna honum, senda hann aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Tíminn er núna.

Og að lokum vil ég segja þetta: Við skulum ekki gleyma því að Landsvirkjun skilaði 4,25 milljarða arði í apríl. Við Íslendingar búum enn þá við lægsta orkuverð í heimi. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að vilja rugga þessum farsæla báti sem siglt hefur með okkur í gegnum ólgusjó og séð til þess að orkuverðið sé okkur alltaf hagstætt? Ég hafna þessum pakka. Og ég veit að það mun dynja á okkur hræðsluáróður og jafnvel einhvers konar hótanir.